Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 185
185
um skepnum, og að þannig höfum við hagað okkur frá ómunatíð á næstum
allri jörðinni.“ Það fór hrollur um Míkrómegas sem spurði hver ástæðan
gæti verið fyrir þessum hræðilegu deilum milli svo vesælla dýra. „Þetta
snýst um drulluhaug á stærð við hæl þinn, sagði heimspekingurinn. Ekki
það að einn einasti þessara milljóna manna sem skornir eru á háls fari fram
á hálmstrá af þessum drulluhaug. Það snýst bara um að vita hvort hann til-
heyri vissum manni sem nefndur er Sultan eða öðrum sem, ég veit ekki af
hverju, er nefndur Sesar. Hvorugur þeirra hefur nokkru sinni séð, né mun
nokkru sinni sjá, þennan litla afkima sem málið snýst um og næstum engin
þessara skepna sem skera hver aðra á háls hefur nokkru sinni séð skepnuna
sem þeir láta skera sig á háls fyrir.
– Ah, vesalingarnir! hrópaði Síríusbúinn með vanþóknun, er hægt að
skilja öfgar þessarar trylltu reiði? Mig langar mest til að taka þrjú skref og
þurrka út með þremur spörkum þessa mauraþúfu af fáránlegum morðingj-
um. – Verið ekki að hafa fyrir því, var honum svarað, þeir vinna sjálfir nóg
að eyðileggingu sinni. Vitið til að eftir tíu ár verður ekki einu sinni hundr-
aðasti hluti þessara vesalinga eftir; vitið til að jafnvel þótt þeir dragi ekki
upp sverð, þá gerir hungur, þreyta eða óhófleg drykkja út af við þá næstum
alla. Reyndar eru það ekki þeir sem á að refsa: Það eru villimennirnir sem
heima sitja og skipa fyrir um morð milljóna manna úr skrifstofum sínum á
meðan þeir liggja á meltunni og láta síðan þakka Guði hátíðlega fyrir.“
Ferðalangurinn varð klökkur af meðaumkun með hinu litla mannkyni
sem hann fann svo furðulega miklar andstæður hjá. „Þar sem þið tilheyrið
hinum litla hópi spekinga, sagði hann við þessa herramenn, og svo virðist
sem þið drepið engan fyrir fé, þá bið ég ykkur að segja mér í hvað þið verj-
ið tíma ykkar? – Við kryfjum flugur, sagði heimspekingurinn, við mælum
línur, við söfnum tölum, við erum sammála um tvö eða þrjú atriði sem við
skiljum og við deilum um tvö eða þrjú þúsund atriði sem við skiljum ekki.“
Síríusbúinn og íbúi Satúrnusar fengu strax þá flugu í höfuðið að spyrja
þessi hugsandi atóm í þaula til að komast að því hvað þau væru sammála
um.
„Hversu langt telst ykkur til að sé frá Hundastjörnunni að stóru stjörn-
unni í Tvíburunum?“ Þeir svöruðu allir sem einn: „Þrjátíu og tvær og hálf
gráða. – Hvað er langt héðan og til tunglsins? – Sextíu hálfþvermál jarð-
arinnar í heilum tölum. – Hversu mikið vegur andrúmsloftið ykkar?“
Hann hélt sig hafa náð að gabba þá en þeir sögðu honum allir að andrúms-
loftið vægi um það bil níu hundruð sinnum minna en samsvarandi magn
MÍKRÓMEGAS