Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 187
187
ingurinn frá Síríusi. og þú vinur minn, sagði hann við fylgismann Leibnitz
sem var þarna, hvað er sál þín? – Hún er, svaraði hinn, vísir sem sýnir hvað
tímanum líður á meðan líkami minn ómar; nú eða það er hún sem ómar á
meðan líkami minn sýnir hvað klukkan er; nú eða sál mín er spegill
alheimsins og líkami minn er rammi spegilsins: Það er ljóst.“
Lágvaxinn fylgismaður Lockes var þarna rétt hjá og þegar hann var loks
ávarpaður sagði hann: „Ég veit ekki hvernig ég hugsa, en ég veit að ég hef
aldrei hugsað nema skilningarvit mín hafi gefið mér ástæðu til. Að það
fyrirfinnist líkamslausar og greindar verur efast ég ekki um, en að það sé
Guði ómögulegt að miðla hugsuninni til efnisins, það efast ég stórlega um.
Ég ber djúpa virðingu fyrir hinum eilífa mætti, það er ekki mitt að afmarka
hann, ég held engu fram, ég læt mér nægja að trúa því að fleira sé mögulegt
en við höldum.“
Dýrið frá Síríusi brosti: Þessi fannst honum ekki sístur að viti og dverg-
urinn frá Satúrnusi hefði faðmað fylgismann Lockes, ef ekki hefði verið
fyrir hið óskaplega misræmi. En til allrar óhamingju var þarna lítil smávera
með ferhyrnda húfu sem greip fram í fyrir öllum heimspekilegu smáver-
unum; hann sagðist vita allan leyndardóminn, að hann væri að finna í
Summu heilags Tómasar. Hann mældi út himnabúana tvo frá toppi til táar,
hann fullyrti við þá að persónur þeirra, veraldir, sólir og stjörnur væru
eingöngu gerðar fyrir mennina. Við þessi orð urðu ferðalangarnir gripnir
þeim óstöðvandi hlátri sem samkvæmt Hómer er guðunum eiginlegur:
Magar þeirra og axlir hristust til og frá, og í þessum krampakippum féll
skipið, sem Síríusbúinn hafði á nöglinni, ofaní buxnavasa dvergsins. Þessir
tveir ágætu menn leituðu lengi að því og að lokum fundu þeir áhöfnina
aftur og komu henni fyrir á sínum stað. Síríusbúinn tók litlu mölflugurnar
aftur upp og ávarpaði þær aftur mjög vinsamlega þó að innst inni væri
hann dálítið reiður yfir því að þessar óendanlega smáu agnir væru svo
óendanlega uppfullar af oflæti. Hann lofaði þeim að hann myndi gera
handa þeim góða heimspekibók, með agnarsmáu letri sem þær gætu lesið
og að í þessari bók myndu þær sjá innsta eðli hlutanna. og hann stóð við
það. Hann gaf þeim bókina áður en hann fór: Farið var með hana í
Vísindaakademíuna í París en þegar ritarinn opnaði hana sá hann ekkert
nema auðar blaðsíður. Ah! sagði hann, þetta grunaði mig.
Gróa Sigurðardóttir þýddi
MÍKRÓMEGAS