Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 206
206
stjórn og nefndi við vin sinn Björn Þórðarson hvort hann vildi veita slíkri
stjórn forsæti. Ekki varð samkomulag um neinn af þessum möguleikum.
Loks var haldinn fundur í ríkisráði þann 7. nóvember þar sem ríkisstjóri
samþykkti lausnarbeiðni Hermanns.39
Þjóðstjórnin var síðan endurskipuð óbreytt 18. nóvember en loft var
enn lævi blandið innan hennar, einkum vantreysti Hermann Jónasson for-
manni Sjálfstæðisflokksins, Ólafi Thors. Steininn tók síðan úr þegar Sjálf-
stæðisflokkur lýsti yfir stuðningi við tillögur Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks
um breytingar á kosningakerfinu, sem var flokkunum þremur mjög í óhag
en Framsóknarflokki afar hagkvæmt.
2.3. Ríkisstjóri og ríkisstjórnir 1942–1944
Þann 16. maí 1942 veitti ríkisstjóri Þjóðstjórninni lausn og samdægurs tók
við einsflokksstjórn Sjálfstæðisflokksins undir forsæti Ólafs Thors en auk
hans sátu í stjórninni aðeins tveir aðrir ráðherrar. Stjórnin var bráðabirgða-
stjórn sem var einungis mynduð til að flokkarnir þrír sem höfðu náð sam-
komulagi um breytingar á kosningakerfinu gætu hrundið vilja sínum í
framkvæmd þrátt fyrir harðvítuga andstöðu Framsóknarflokksins, sem
taldi sig illa leikinn af fyrrum samstarfsflokki sínum í Þjóðstjórninni,
Sjálfstæðisflokknum. Fyrir Ólaf Thors sem flokksformann og Sjálfstæðis-
flokkinn almennt gat þessi stjórnarmyndun orðið upphaf nýrra tíma, en
forystumaður í Sjálfstæðisflokknum – eða forverum hans – hafði ekki verið
í forsæti ríkisstjórnar eftir að Íhaldsflokkurinn beið ósigur í þingkosning-
um 1927 og flokksformaðurinn, Jón Þorláksson, vék úr sæti forsætisráð-
herra fyrir formanni Framsóknarflokksins, Tryggva Þórhallssyni. opnun
til vinstri var sérlega mikilvæg fyrir Sjálfstæðisflokkinn því einungis þannig
var hægt að binda enda á oddaaðstöðu Framsóknarflokksins við stjórnar-
myndanir, sem ólíkt Sjálfstæðisflokknum gat verið í stjórnarsamstarfi bæði
til hægri og vinstri.
Ekki ber að skilja það svo að samstarf Sjálfstæðisflokks til vinstri hafi
eingöngu byggt á valdahagsmunum hans. Langt í frá: samhljómurinn var
raunverulegur í fleiri málum en kjördæmamálinu. Reyndar má ganga enn
lengra og fullyrða að á árinu 1942 hafi tekist víðtæk samvinna milli
Kveldúlfsarms Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins. Í sameiningu
hafði flokkunum tveim tekist að rjúfa lífæð Alþýðuflokksins: sameiningu
39 Einkaskjöl Sveins Björnssonar, bls. 10–19. Sjá einnig Bjarni Benediktsson, „Þingræði
á Íslandi”, Land og lýðveldi, 1. bindi, bls. 132–150, hér einkum bls. 147.
sVanuR kRIstJánsson