Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 45
45
Þannig er samsetning ræðunnar sem Sókrates segir óundirbúna og ólíka
því sem menn eigi að venjast: Ræðan í heild og hlutar hennar eru í full-
komnu samræmi við meginreglur grískrar ræðulistar. En þó svo að
Málsvörnin sé sniðin eftir móti dómsmálaræðna snýr hún upp á þær með
ýmsum hætti, t.d. í inngangs- og niðurstöðuköflunum, þar sem hún gagn-
rýnir berum orðum þær venjur sem tíðkast. Því má túlka Málsvörnina sem
andófsrit og líta svo á að hún feli jafnframt í sér skapandi endurritun, hún
sé nýsköpun á grundvelli hefðarinnar.
Eins og fram hefur komið telja þeir sem álíta Málsvörnina trúverðuga
heimild um vörn Sókratesar hana til elstu rita Platons.20 En listfengi ræð-
unnar mælir sterklega gegn því að svo geti verið. Á henni er enginn byrj-
endabragur, heldur er hún fullþroska meistaraverk. Sá sem samdi hina
varðveittu Málsvörn Sókratesar hefur ekki verið að fikra sig áfram með
ræðuritun, hún er þvert á móti úthugsað yfirleguverk, vel skipulagt, vel
stílað, dramatískt og kómískt í senn, og slíkt verk verður ekki samið nema
á grunni ákveðinnar reynslu og þjálfunar. Auk þess gæti ýmislegt bent til
þess að Málsvörnin feli í sér óbeinar vísanir í önnur rit eftir Platon sem gert
sé ráð fyrir að lesendur þekki og hljóti því að vera eldri en hún. Þannig
megi t.d. gera ráð fyrir að Menon sé eldri en Málsvörnin þar sem orðalags-
líkindi um skáldin samræmist frekar þeim texta en Málsvörninni.21 E.R.
Dodds taldi að Menon væri yngri en Gorgías sem væri að öllum líkindum
saminn eftir Sikileyjarför Platons eða laust fyrir eða um svipað leyti og
stofnun Akademíunnar (387).22 Þar með ættu bæði Menon og Gorgías að
vera eldri en Málsvörnin.
20 W.K.C. Guthrie ræðir hin ýmsu viðhorf, en segist að lokum hneigjast til þess að
fallast á að Málsvörnin hafi verið „Plato’s first work, written not long after the
event“, A History of Greek Philosophy, IV, bls. 72; sbr. Strycker og Slings, „Plato’s
Apology of Socrates“, bls. 86. Guthrie telur að Málsvörnin sé „one of the most
important sources for the life, character and views of Socrates himself“ (bls. 72).
21 Rökin eru þau að orðalagið í Málsvörninni geri ráð fyrir því að áður hafi komið
fram að stjórnmálamenn stjórni ekki af visku, en um það er ekkert sagt í
Málsvörninni sjálfri; hins vegar komi það fram í Menoni. Þetta sést reyndar ekki
mjög vel í íslensku þýðingunum: „Vitið í þeim [þ.e. stjórnmálamönnum] er því
ekki meira en í spámönnum eða véfréttasöngvurum því að þeir segja líka margt
satt en vita ekkert af því sem þeir segja“ (Menon 99c). „Ég varð þess brátt [einnig]
vísari um skáldin, að þau ortu ekki af vizku, heldur af einhverri andagift og guð-
móði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki
sjálf“ (Málsvörnin 22b–c). Sbr. Strycker og Slings, „Plato’s Apology of Socrates“,
bls. 88; þeir telja Málsvörnina skrifaða allt að 15 árum eftir atburðinn.
22 Plato, Gorgias, útg. E.R. Dodds, oxford: Clarendon, 1959, bls. 27.
SKýIN oG MÁLSVöRN SÓKRATESAR