Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 196
196
til bráðabirgða og félli sjálfkrafa úr gildi „þegar við fáum fullt sjálf-
stæði“.14
Almennt töldu þingmenn að með kosningu ríkisstjóra væri í reynd verið
að stofna lýðveldi á Íslandi án þess að taka ákvörðun um slit konungssam-
bandsins við Danmörku. Ríkisstjórinn væri handhafi æðsta valdsins, kjör-
inn af Alþingi í umboði íslensku þjóðarinnar. Ríkisstjóri væri forveri æðsta
valdamanns tilvonandi formlegs lýðveldis, hvort sem sá yrði ríkisstjóri
ásamt valdalausum sameiginlegum konungi með Danmörku eða forseti í
sérstöku íslensku lýðveldi. Umræðurnar um bústað ríkisstjóra Íslands
sýndu einnig glögglega að litið var á kjör hans sem merkan áfanga í sjálf-
stæðisbaráttu Íslendinga; þjóðin væri í fyrsta sinn að velja sér lýðræðislega
kjörinn handhafa æðsta valdsins.
Mjög skiljanlegt er að ýmsir alþingismenn skuli hafa forðast að lýsa
fastmótuðum skoðunum á kosningu ríkisstjóra/forseta. Vitað var að meðal
þingmanna voru mjög skiptar skoðanir um afstöðuna til flokkavalds og
fulltrúalýðræðis. Í upphafi 20. aldar var þorri þjóðkjörinna þingmanna
eindregið andsnúinn óheftu fulltrúalýðræði og samþjöppun valds en lagði
áherslu á beint lýðræði og valddreifingu. Vilji meirihluta þingsins kom t.d.
einstaklega skýrt fram í löggjöf um sveitarstjórnir, fyrst með lögum 1914
um beina kosningu borgarstjóra í Reykjavík og síðar í sveitarstjórnarlögum
1926 þar sem tilskilið var að alla bæjarstjóra í kaupstöðum landsins skyldi
kjósa beinni kosningu.15 Þessi ákvæði voru afnumin í nýjum sveitastjórnar-
lögum 1929 og bæjarstjórnum falið að ráða bæjarstjóra. Þingmenn hins
nýstofnaða Sjálfstæðisflokks mótmæltu þessu harðlega og Magnús Jónsson
sagði m.a.:
Maður gæti hugsað sjer þann möguleika, að viðkomandi meiri
hluti í bæjarstjórn veldi þann manninn, sem hann teldi sjer
hentastan og þægastan, en jeg held, að það væri betra, bæði fyrir
14 Sama stað. Árið áður hafði forsætisráðherra falið nefnd þriggja hæstaréttardómara
auk Bjarna Benediktssonar, prófessors í stjórnlagafræði, að semja frumvarp til
nýrrar stjórnarskrár þar sem forseti kæmi í stað konungs eftir sambandsslit Íslands
og Danmerkur. Samkvæmt óskum ríkisstjórnarinnar var í frumvarpi fjórmenning-
anna gert ráð fyrir „að sameinað alþingi kjósi forseta“. Sjá Helgi Bernódusson,
„Uppruni 26. gr. stjórnarskrárinnar“, Saga 48(1), 2010, bls. 26–33, hér einkum bls.
27. Í umræðunum um ríkisstjórann á Alþingi hafði Hermann Jónasson forsætis-
ráðherra hins vegar enga skoðun á fyrirkomulagi á kjöri forseta í fyrirhuguðu lýð-
veldi.
15 Sjá Svanur Kristjánsson, „Ísland á leið til lýðræðis: Löggjöf um stjórn Reykjavíkur“,
Ritið 2/2006, bls. 115–142.
sVanuR kRIstJánsson