Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 77
77
sem geyma eldri hugform og hægt er að rannsaka in vivo. oft kemur í ljós
að stutt er síðan ýmis algeng orð öðluðust núverandi merkingu sína.
Þannig er því farið með latnesk hugtök svo sem inspiratio (innblástur) eða
evolutio (þróun).13 Spiritus, sem leynist í inspiratio, er andinn sem sveif yfir
vötnunum, á grísku pneuma, vindur, andblær, andardráttur. orðið vísar til
þess að andinn sem kveikir í okkur líf var um leið efnislegur andardráttur,
vindur himinhvolfsins; og enn í dag þarf góði hirðirinn stundum sjálfur að
taka að sér hlutverk guða og blása lífi í kok nýfædda lambsins. Svipað má
segja um evolutio: fyrir samtíðarmönnum Darwins var hugtakið evolution of
species eða þróun tegunda nær merkingarlaust, því evolution var einstak-
lingsbundið ferli sem við myndum nú kalla framköllun eða opnun, eins og
blóm úr hnappi eða fiðrildi úr púpu; það var rökleysa að tala um að teg-
undir gætu blómgast á þennan hátt. og merkilegt er að fylgjast með fálm-
kenndum tilraunum Samuels Taylors Coleridge, eldri samtímamanns
Darwins, þegar hann reynir að fjalla um nýtt og nafnlaust hugtak sem
Freud átti eftir að kenna okkur að heiti „undirmeðvitund“:
Til er heimspekileg (og að því marki að hún sé raungerð með
frelsisátaki, ekki náttúruleg) vitund, sem liggur undir eða (svo
að segja) bak við hina sjálfsprottnu vitund sem er eðlislæg öllum
hugsandi verum.14
owen Barfield telur að hin margumtalaða torræðni í verkum Coleridge sé
að minnsta kosti öðrum þræði af því sprottin að tungumálið bjó ekki yfir
farvegi fyrir þau hugtök sem hann þurfti á að halda,15 og það rennur upp
fyrir okkur að fyrir tíma Coleridge var hugtakið undirmeðvitund ekki til í
hugarheimi manna. Varla er hægt að hugsa sér róttækari mismun á hug-
myndum mannkyns um sjálft sig, þótt við förum ekki nema tæp 200 ár
aftur í tímann.
13 Margt af því sem ég hef að segja hér kemur úr smiðju owens Barfield, en ég á erf-
itt með að benda á vissa staði. Af bókum hans má ef til vill helst nefna Poetic Diction
(1928), Saving the Appearances (1965), What Coleridge Thought (sjá hér á eftir) og
The Rediscovery of Meaning (1977), þótt þessi upptalning nægi hvergi.
14 „There is a philosophic (and inasmuch as it is actualized by an effort of freedom, an
artificial) consciousness, which lies beneath or (as it were) behind the spontaneous
consciousness natural to all reflecting beings.“ Tilvitnunin er tekin úr owen
Barfield, What Coleridge Thought, Middletown: Wesleyan University Press, 1971,
bls. 15–16.
15 Sbr. sama rit, bls. 16.
LÖGHEIMILI SANNLEIKANS