Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 121
121
Í þessu felst að koma á samræmi hins innra og hins ytra. Þar sem innri
gerð mannsins og hin ytri veröld náttúrunnar eru af sama toga er þetta
fyllilega raunhæft markmið. Daoistar, og raunar einnig aðrir kínverskir
hugsuðir, hafa einatt lagt mikla áherslu á „einingu manns og náttúru“
tianren heyi 天人合一. Allt sem er til lýtur því ferli sem dao tjáir. Í ritinu
Zhuangzi 庄子 er samnefndur daoískur spekingur spurður þess af læri-
sveini sínum hvar þetta himneska dao sé að finna. Hann segir: „Það er ekki
til sá staður þar sem það er ekki.“ Lærisveinninn biður hann þá að vera
nákvæmari. „Það er í maurum,“ segir Zhuangzi. „Í svo ómerkilegri veru?“
segir lærisveinninn forviða. „Það er í grasi og stráum,“ heldur Zhuangzi
áfram. „Í enn ómerkilegri verum?“ hváir lærisveinninn. „Það er í mold og
grjóti,“ segir Zhuangzi þá. „Hvernig getur það tekið sér bólfestu í slíkum
óþverra?“ spyr lærisveinninn hneykslaður. „Það er í pissi og kúk.“ Þá
þagnar lærisveinninn loks.8
Í ritinu Guanzi 管子, sem telst til rita löghyggjuskólans (法家 fajia) en
þáði ýmis áhrif frá daoisma og er talið vera frá fjórðu öld f.o.t., er sett fram
eftirfarandi lýsing á dao: „Hvað varðar stærð þess, þá er ekkert handan
þess. Hvað varðar smæð þess, þá er ekkert innan þess.“9 Dao er þannig
alltumlykjandi; það er jafnt ferlið í heild sem og það mynstur, sá taktur,
sem einstakar verur hrærast samkvæmt. Það er að segja, upp að því marki
sem þær hafa ekki glatað því.
Tvíhyggja á borð við þá sem einkennir grísk-kristna heimspeki og birt-
ist einna skýrast í verkum Platons og René Descartes setti aldrei mark sitt
á kínverska hugsun og þar með náttúruspeki daoista. Þannig er ekki um að
ræða guð sem skapaði veröldina og er henni jafnt aðskilinn sem æðri í yfir-
skilvitleika sínum. Því er ekki heldur að finna skýran greinarmun á hinu
helga og hinu veraldlega, skiljanlegum og skynjanlegum veruleika, hinu
yfirnáttúrulega og hinu náttúrulega. Hið guðlega, hið helga, er íverandi í
veruleikanum, í öllum þáttum hans, jafnvel í pissi og kúk. Í þessum skiln-
ingi er sérhver hlutur helgur.
Sérhver hlutur býr jafnframt yfir einhverju formi lífs fyrir tilstilli qi 气,
frumorku veraldarinnar sem er jafnt efnislegur sem andlegur verufræði-
8 Zhuangzi 庄子, A Concordance to Chuang Tzu, Harvard-yenching Institute
Sinological Index Series, Cambridge: Harvard University Press, 1956, §22, bls. 59.
Allar þýðingar úr Zhuangzi eru mínar eigin.
9 Tilvitnunin er þýdd úr ensku og fengin að láni hjá Hans-Georg Moeller, Daoism
Explained: From the Dream of the Butterfly to the Fishnet Allegory, Chicago: open
Court, 2005, bls. 33.
JAFNGILDIR HEIMAR