Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 71
71
hinu óendanlega og um leið hinu óræða, skáldskapnum, í viðleitni sinni til
að skilja allt og skilja enga óvissu eftir. Frá Platoni til Hegels hafi heim-
speki firrt sjálfa sig leyndinni, leyndarmálinu sem samrýmist ekki þekk-
ingu og hlutleysi. Derrida orðaði þetta svo: „[V]issar aðgerðir, vissar bók-
menntalegar eða skáldlegar líkingar fá okkur stundum til að halda að
heimspekileg kenning um bókmenntir líti framhjá eða virði að vettugi það
sem hún bannar af þó nokkru offorsi“.47 Til að skilja þessa afneitun heim-
spekinnar væri önnur rödd nauðsynleg, en hana væri að finna í bókmennt-
um sem gætu einnig myndað mótvægi við stjórnmál samtímans, mótvægi
við ört vaxandi tæknihyggju og eftirlits(þrá)hyggju lögreglu og valdhafa.
Eins og hér hefur verið rakið myndar Derrida þessa tengingu með ref-
hvörfum: Það sé nauðsynlegt að hugsa öðruvísi um möguleika hins
ómögulega. Á yfirborðinu hljómar þetta eins og orðaleikur eða mótsögn.
En Derrida vissi betur: „Þetta snýst um alvarlegasta og mikilvægasta verk-
efni okkar tíma í stjórnmálum og skáldskap.“48 Þegar Derrida lítur t.d. á
arfleifð marxisma upphefur hann ekki stéttabaráttu eða skrifræði heldur
leggur áherslu á þá frelsandi möguleika sem felast í „verðandi lýðræði“.
Í greiningu Derrida á skáldskap og tengslum bókmennta og heimspeki
má finna slíka framtíðarsýn. Með gagnrýni sinni sýndi Derrida fram á að
allur texti og mörk sem um ræðir eru alltaf þegar afbyggð. Eins og hér
hefur verið lögð áhersla á túlkaði Derrida verk Cixous í „skildaga-“/við-
tengingarhætti eða jafnvel í „sjálfskildagahætti.“ Skildagann „gæti-ég“
setur Derrida upp sem öflugri gjörning en „þetta er“. Þannig lætur Hélène
Cixous „reyna á kraft þessa „gæti ég“ í skrifum sínum og í einu vetfangi
verður hið ómögulega mögulegt. Veruleikinn veitir hugarórum/draumór-
um viðtöku.“49 Þegar Derrida beinir sjónum að orðasambandinu „gæti ég“
eða „mætti ég“ í textum Cixous, þessum annarlega viðtengingarhætti sem
er hvorki boðháttur né nafnháttur, fetar hann mörkin milli hins mögu -
lega og ómögulega. og það er nákvæmlega þar sem unnt er að staðsetja,
skilgreina og útfæra heimspeki Jacques Derrida og skáldskap Hélène
Cixous.50
47 Christian Descamps, „Sur les traces de la philosophie“, viðtal við Jacques Derrida,
Le Monde, 31. janúar 1982.
48 Antoine Spire, „Autrui est secret parce qu’il est autre“, viðtal við Jacques Derrida,
Le Monde de l’éducation, 284, september 2000, bls. 14–21.
49 Jacques Derrida, „H.C. pour la vie, c’est à dire…“, bls. 140.
50 Ég stend í þakkarskuld við EDDU-öndvegissetur vegna samningu þessarar grein-
ar en hún er hluti af rannsóknarverkefnum þess.
Ó-oRðIð MILLI BÓKMENNTA oG HEIMSPEKI