Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 38
38
Vitanlega hefur Platón ekki munað málsvörn Sókratesar orð-
rétta, þótt hann væri við staddur, og samtalið við Krítón hefur
hann ekki heyrt, eftir því sem frá því er sagt. En varnarræðuna
höfðu fleiri heyrt en Platón. Ef hann hefði þar farið fjarri orðum
Sókratesar, í því skyni að fegra málstað hans, „þá var það háð, en
eigi lof,“ þá sló hann vopnið úr sjálfs sín hendi, því að þá lögðu
menn ekki trúnað á hin ritin heldur. Það sem annarsstaðar er
sagt frá málsvörn Sókratesar, er líka í fullu samræmi við hina
skráðu ræðu. orðalag Sókratesar hefur verið svo einkennilegt
og skoðanir hans svo einfaldar, að Platón gat verið viss um að
hvika hvergi frá þeim. Enda hefði það ekki verið samboðið virð-
ingu hans fyrir meistaranum að fara fjarri sannleikanum um
þetta efni.2
Þessar röksemdir, sem eiga að renna stoðum undir trúverðugleika
Málsvarnarinnar, virðast allar gefa sér fyrirfram að Málsvörnin sé marktæk
heimild vegna þess að hún hafi verið skrifuð skömmu eftir réttarhöldin.
Skoðum þær sem snöggvast.
Fyrsta röksemdin er sú að það hefði verið óklókt af Platoni að fara
„fjarri orðum Sókratesar, í því skyni að fegra málstað hans“. Fyrir henni
eru gefnar tvær ástæður. Önnur ástæðan er sú að fleiri en Platon hefðu
heyrt varnarræðuna og gætu þar með borið brigður á Málsvörnina í með-
förum Platons ef hún væri ekki sannleikanum samkvæm. Þessi röksemd
fær því aðeins staðist að það sé fyrirfram gefið að Málsvörnin hafi verið
skrifuð niður stuttu, eða að minnsta kosti ekki ýkja löngu, eftir flutning
hennar. Gengið er út frá því að aðrir sem voru viðstaddir muni sjálfir rétt,
vegna þess að svo skammt er um liðið, og þess vegna verði Platon að gæta
sín. – Hin ástæðan er sú að ef Málsvörnin væri ekki sannleikanum sam-
kvæm græfi það undan trúverðugleika annarra rita Platons þar sem
Sókrates er aðalpersónan. Þessi röksemd felur það hins vegar í sér að trú-
verðugleiki Sókratesar í óskrifuðum ritum Platons – sem þó virðast hálf-
partinn þegar vera skrifuð – velti á því að Málsvörnin sé sannleikanum
samkvæm (Aþeningar mundu sem sé ekki trúa því sem Platon hefur eftir
Sókratesi í þeim ritum sem hann skrifaði síðar nema því aðeins að hann
segði satt og rétt frá honum í Málsvörninni!).
Í öðru lagi er það fullyrt að Málsvörnin samræmist því sem annars staðar
2 Sigurður Nordal, „Inngangur“, bls. 19.
GunnaR HaRðaRson