Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 138
138
ekki hugsun sína á öðrum. En það sem skapar Bóethíusi sérstöðu, að dómi
Marenbons, liggur í því hvernig hann notar heimspekilega rökræðu til að
nálgast og skýra viðfangsefnin, heimspekileg og guðfræðileg, eins og til
dæmis í Opuscula Sacra.2
Þótt Bóethíus hafi skrifað um heimspekileg og guðfræðileg vandamál
og þýtt verk klassískra höfunda og samið skýringar við þau, er De consola-
tione Philosophiae eða Um hugfró heimspekinnar án efa hans þekktasta og
víðlesnasta verk. Engu að síður er Hugfróin margslungin að efni og inni-
haldi. Textinn er ofinn úr mörgum þráðum og hægt er að nálgast verkið úr
ólíkum áttum en sú staðreynd hefur bæði kallað fram ýmsar spurningar
varðandi verkið og skapað ákveðinn vanda um hvernig beri að túlka það.
Þrátt fyrir augljósar áherslur Bóethíusar á heimspeki í Hugfrónni má einn-
ig spyrja sig um bókmenntalegar eigindir verksins: virkni orðræðunnar í
sambandi sjálfsverunnar og textans, stöðu Bóethíusar í verkinu og utan
þess, og hvernig það tengist hugmyndum um iðkun heimspeki í fornöld og
á miðöldum. Fyrir mér vakir í hnotskurn að skýra bakgrunn, markmið og
einkenni verksins út frá hugmyndum Johns Marenbon, Pierres Hadot og
Michels Foucault, og velta fyrir mér hvernig lesa megi og túlka Hugfróna í
ljósi þeirra. Tilgangurinn er að draga fram áherslur Bóethíusar á heim-
speki sem lífsmáta og sýna hvernig rökræða Bóethíusar er mörkuð hinum
siðferðislegu og tilvistarlegu markmiðum sem heimspeki sem lífsmáti
snerist um í fornöld og á ármiðöldum, en mér vitanlega hefur ekki áður
verið gerð tilraun til að lesa Hugfróna í því samhengi.
2
Bóethíus fæddist inn í auðuga og virta fjölskyldu, sem tilheyrði hinni
gömlu rómversku aðalsstétt, um svipað leyti og síðasti rómverski keisarinn
Romúlus Ágústulus var settur af árið 476. Eftir ótímabæran dauða föður
hans tók konsúllinn Q. Aurelius Memmis Symmachus hann að sér, en
Bóethíus giftist síðar dóttur hans, Rusticönu. Forréttindastaða Bóethíusar
innan rómverska aðalsins, sem var kristinnar trúar á þessum tíma, tryggði
honum afar góða menntun í grískum og latneskum bókmenntum og
nýplatónskri heimspeki. Þegar Bóethíus komst til manns var Ítalía undir
yfirráðum Þjóðreks, Gota sem var menntaður í Konstantínópel, en hann
leyfði gamla rómverska aðlinum að halda í hefðirnar í Róm, sem þá var
ekki lengur caput mundi stjórnmála og valdabrölts heldur Ravenna. Frá því
2 John Marenbon, Boethius, oxford: oxford University Press, 2003, bls. 4.
steInaR ÖRn atlason