Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 12
11
við undirskipandi vald, en það vald geti verið af ýmsum toga.16 Vinthagen
stillir því valdi og andófi upp sem andstæðum pólum en slík tvenndar-
hyggja missir sjónar á því hvernig vald og andóf geta skarast á ýmsa vegu.
Mannfræðingurinn Lila Abu-Lughod hefur í því samhengi bent á að andóf
gegn einu formi undirskipunar leiðir iðulega til nýrra gerða valdaafstæðna
þar sem undirskipun í stigveldi er enn til staðar en hefur tekið á sig annars
konar birtingarmyndir. Andóf stuðlar því oftar en ekki að tilfærslu valds,
frekar en frelsunar undan því.17
danski heimspekingurinn Finn Janning nálgast svo andóf á allt annan
hátt, en hann færir í bókinni Modstand rök fyrir andófi sem tilteknu formi
mannlegrar tilvistar. Með því að lifa lífi sínu alfarið á eigin forsendum grafi
einstaklingurinn undan þeim öflum sem vilja og reyna að móta samfélagið
og stýra því, og þar með lífi fólks, inn á afmarkaðar brautir. Þess háttar
andóf felst ekki sjálfkrafa í einhvers konar andstöðu heldur ekki síður í
sköpun á aðstæðum og möguleikum til hegðunar óháð þeim ráðandi sam-
félagsöflum sem reyna að móta hugarfar og hegðun fólks. Skapandi andóf
þarf ekki að eiga sér neitt eiginlegt markmið heldur felst það í sjálfri sköp-
uninni á ólíkum formum tilvistar og lífs.18
Út frá slíkum skilningi á hugtakinu má hæglega túlka sem andóf margs
konar hátterni sem er gjarnan afskrifað sem frávik sneytt nokkurri dýpri
merkingu. Þannig mætti í ákveðnum tilvikum túlka hegðun sem var talin
félagslegt vandamál í íslensku samfélagi á nítjándu öld og reynt var að
hefta með lögum – flakk, barneignir utan hjónabands, sambúð ógiftra,
lausamennsku19 – sem skapandi andóf gegn ríkjandi normum samfélags-
ins, ekki síst ef hægt er að sýna fram á endurtekin brot einstaklinga. Hinn
„valdalausi“ undirsáti skapar með hegðun sinni sitt eigið rými og afneitar
þannig valdbeitingu ráðandi afla og þeim forsendum sem sú valdbeiting
byggir á. Andófið felst í sjálfu athæfinu, óháð því hvaða merkingu gerand-
inn leggur í gjörðir sínar.
Það er ljóst að hér er um heldur róttæka útvíkkun að ræða á hug-
taki sem hefur löngum haft mjög afmarkaða (og gildishlaðna) þýðingu.
16 Stellan Vinthagen, „ickevåldsaktion: En Social Praktik av Motstånd och Konst-
ruktion“ [ritgerð til doktorsprófs í félagsfræði], Gautaborg: Göteborgs Universitet,
2005, bls. 271.
17 Lila Abu-Lughod, „The romance of resistance: Tracing transformations of power
through Bedouin women“, American Ethnologist 1/1990, bls. 41–55.
18 Finn Janning, Modstand, Århus: Klim, 2009.
19 Sjá t.d. Guðmund Hálfdanarson, „Íslensk þjóðfélagsþróun á 19. öld“.
SKiN oG SKUGGAR MANNLÍFSiNS