Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Side 13
12
Þessi útvíkkun hugtaksins „andóf“ dregur dám af þeirri upplausn „hefð-
bundinna“ merkingarkerfa sem kennd hefur verið við póstmódernisma,
póstkólóníalisma og orðræðubyltingu (e. the linguistic turn), og hefur átt
sér stað samhliða þeirri upplausn og í samræðu við hana. Í stað yfirlýstrar
(en hugsanlega leynilegrar) baráttu fyrir pólitískum markmiðum byggðum
á kerfis bundinni hugmyndafræði og/eða rökrænni greiningu á tilteknu
ástandi eða fyrirkomulagi – sem sumir fræðimenn telja hina réttu og eigin-
legu merkingu hugtaksins andóf20 – hefur hugtakið nú verið teygt svo að
það rúmi hvers kyns hegðun sem felur í sér óhlýðni, ögrun eða uppreisn.21
Svo mikil breyting á merkingu hugtaks hlýtur ávallt að vera umdeild. Það
er enda leiðarstef í gagnrýni á þessa útvíkkun andófshugtaksins að það
verði fyrir bragðið merkingarsnautt og ónothæft til að greina félagsleg
fyrir bæri og breytingar á þeim. Þess í stað tala sumir fræðimenn fyrir
þrengri skilgreiningu sem feli í sér mælanlega eiginleika á borð við auðsætt
valdamisræmi og skýrt orsakasamhengi þar sem augljóst sé hverju verið er
að andæfa og af hverju.22
Í stað þess að karpa um skilgreiningu andófs og hvað megi eða megi
ekki túlka sem slíkt þykir mér álitlegt að beita einhvers konar flokkun-
arkerfi (e. typology) þar sem ein túlkun á andófi útilokar ekki aðra. Slíkt
kerfi hefur verið hannað af félagsfræðingnum J. Patrick Williams. Líkan
hans byggir á þremur ásum sem skerast og mynda það sem hann kallar
víddir (e. dimensions) andófs sem beita má til að greina ólíkar gerðir and-
ófs eftir markmiðum þeirra og virkni, umfangi í tíma og rúmi og sýnileika
þeirra og merkingu.23 Flokkunarkerfi Williams gerir þannig ráð fyrir því
að andóf eigi sér stað innan flókinna valdaafstæðna þar sem samspil ólíkra
þátta skapar mismunandi leiðir til að spyrna gegn hvers kyns undirskipun
20 Sjá umræðu hjá Rebeccu Raby, „What is resistance?“, Journal of Youth Studies
2/2005, bls. 151–171, einkum bls. 157–158.
21 Um „upplausn“ andófshugtaksins má lesa víða. Auk ýmissa ofangreindra rita má
benda á greinargóða umfjöllun í Steve Pile, „introduction: opposition, political
identities and spaces of resistance“, Geographies of Resistance, ritstj. Steve Pile og
Michael Keith, New york: Routledge, 1997, bls. 1–32.
22 Sjá t.d. Matthew C. Gutmann, „Rituals of resistance: A critique of the theory of
everyday forms of resistance“, Latin American Perspectives 2/1993, bls. 74–92; Susan
Seymour, „Resistance“, Anthropological Theory 3/2006, bls. 303–321; Tim Cress-
well, „Falling down: Resistance as diagnostic“, Entanglements of Power: Geographies
of Domination/Resistance, ritstj. Joanne P. Sharp, Paul Routledge, Chris Philo og
Ronan Paddison, New york: Routledge, 2000, bls. 256–268.
23 J. Patrick Williams, Subcultural Theory: Traditions and Concepts, Cambridge: Polity,
2011, bls. 92–105.
Vilhelm Vilhelmsson