Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 37
36
bæði löng og persónuleg. Árið er 1627, þrjátíu ára stríðið geisar í Evrópu,
kaþólikkar vilja drepa Ólaf eða reka burt vegna þess að hann er lúterstrú-
ar og lúterstrúarmenn halda að hann sé kaþólskur og ganga í skrokk á
honum. Alls staðar eru hungraðir ræningjar og morðingjar á ferð og prest-
urinn gamli er kominn í krappan dans. Samt gefur hann sér tíma til að
horfa hrifinn og undrandi á fagran klæðaburð höfðingjanna á Norður-
Ítalíu, fegurð fólks og ríkidæmi. Hann dáist að fullkominni myllu sem
hann sér í Hollandi og horfir undrunaraugum á tækninýjungar og sið-
menntun gamalla Evrópulanda. Sjálfur lifir hann á bónbjörgum og góðra
manna miskunn þar til hann nær til Kaupmannahafnar og finnst þá sem
hann sé kominn heim til Íslands eða eins og hann segir: „27. kom eg til
Krónuborgar í danmörk, og þóttist eg þá svo nær og heim kominn til
Íslands.“ (103)
Þrælar
Til eru tvö sérstök bréf Íslendinga skrifuð úr Barbaríinu og þar er
sýnin önnur á Alsír og hina austrænu menningu en sú sem Ólafur tjáir.
Sjónarhornið í bréfunum er þrælanna, hinna kúguðu sem gera sér engar
grillur um stöðu sína. Þannig skrifar Jón Jónsson langt bréf þar sem hann
lýsir því harðræði sem þrælarnir þurftu að sæta af vondum húsbændum.
Það er athyglisvert að hann segir í bréfinu að beinu ofbeldi hafi hann
aðallega verið beittur fyrsta árið, áður en hann lærði málið og fékk þar
með mannleika og eigin rödd til að „verja sig gegn ásökunum húsbænd-
anna“ (132).22 En þá vex jafnframt skilningur á menningu þeirra og trúar-
brögðum og þá magnast freistingin að ganga þeim á hönd. Tungumálið
sem talað var í Alsírborg var blendingsmál úr arabísku, spænsku og hol-
lensku.23 Íslensku börnin hafa lært þetta mál hratt og það flýtti fyrir því að
þau aðlöguðust samfélaginu, væru tekin frá mæðrunum, köstuðu trúnni,
turnuðust og yrðu Tyrkir.
Jón lýsir þeim pyntingum og ofsóknum sem kristna fólkið varð fyrir ef
það neitaði að kasta trú sinni. Sjálfur hefur hann staðið af sér þær freisting-
ar og sækir í sína trúarlegu staðfestu slíkan styrk og sjálfsvirðingu að það
forðar honum frá öllu grandi þegar að honum sækja „illræðisvargar, leon
og djöfullegt fólk og holdlegir árar“ (132). Þeir fangar sem köstuðu trúnni
22 Bréf Íslendinganna úr Barbaríinu eru birt aftan við Reisubók séra Ólafs Egilssonar
(1969) og vitnað til þeirrar útgáfu með blaðsíðutölum innan sviga í textanum.
23 Robert C. davis, Christian Slaves, Muslim Masters, bls. 114.
Dagný KRistjánsDóttiR