Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Side 41
40
sódómíti,“ segir Björn Jónsson. Hann bætir því við að upp um manninn hafi
komist og hann hafi verið stjaksettur af foreldrum drengsins.29
Um þetta gildir hið sama og áður var sagt um píslarsögur og sögur af
grimmd og afbrigðilegum hvötum Tyrkjans. Hitt er annað mál að hern-
aðarmenning Tyrkja var afar samkynhneigð, skv. Robert C. davis, þrælum
var hrúgað saman í gríðarleg fangelsi, sem herleiddu Íslendingarnir kalla
„banjó“ (e. bagnio), þar sem hver lá nánast ofan á öðrum. Í fátækrahverfun-
um við hlið þessara fangelsa eða fangahúsa voru krár þar sem trúvillingar
eða „reinigarðar“ drukku við hlið lauslátra Tyrkja sem drukku á laun. Þar
var stundað opinbert drengjavændi og eigendur fallegra þræla gerðu þá út
sem hórur.30 Höfðingjar keyptu líka unga og fríða menn í „kvennabúr“ sín
og hinn voldugi og auðugi þrælakaupmaður Ali Pegelin31 hafði fjörutíu
drengi frá níu til fimmtán ára í kvennabúri sínu.32 Það eru engar fréttir að
hernaðarsamfélög hafi verið höll undir karlmennskudýrkun en um þessa
reynslu og aðra er varðar kynferðislega notkun og misnotkun á íslensku
þrælunum er ekkert talað í bréfum þeirra um líf sitt í ánauðinni.
Íslenskar ambáttir
Eina bréfið sem varðveitt er frá konu sem var þræll í Barbaríinu var
frá Guðríði Símonardóttur sem skrifaði Eyjólfi eiginmanni sínum í
Vestmannaeyjum bréf, trúlega árið 1631 eða 1632, en fyrst fréttist af henni
á Íslandi árið 1635. Bréfið lýsir bæði heitri trú, efa og örvæntingu. Það er
fullt af flúruðum bænarunum þar sem Guðríður biður manni sínum bless-
unar og lofar Guð.
Arnfríður Guðmundsdóttir guðfræðingur rökstyður að sá trúarhiti sem
fram kemur í bréfi Guðríðar sé guðfræði krossins sem „... gengur út frá því
að Guð opinberi sitt sanna eðli í Kristi, þjáningu hans og krossi, en jafn-
framt muni hinn kristni einstaklingur þekkja Guð í gegnum eigin þjáningu
og kross.“33 Þessi trú sækir styrk sinn í samkennd með Jesú sem verður
29 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 282. Guðrún Ása Grímsdóttir hefur sömuleiðis
skrifað ítarlega um félagslegar afleiðingar Tyrkjaránsins í greininni „Úr Tyrkjaveldi
og bréfabókum“, Gripla 1995, bls. 7–44.
30 Robert C. davis, Christian Slaves, Muslim Masters, bls. 127.
31 Sama rit, bls. 70–71.
32 Sama rit, bls. 126.
33 Þetta er inntak margra þekktra gospelsálma eins og þess sem hefst á orðunum:
„Nobody knows the troubles i’ve seen, nobody else but Jesus.“ Arnfríður Guð-
mundsdóttir, „„Kristur var minn eini vinur“. Þjáning og trú í lífi Guðríðar Sím-
onardóttur“, Ritröð Guðfræðistofnunar 2001, bls. 11–24.
Dagný KRistjánsDóttiR