Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 48
47
Inngangur
Jafnrétti er stórt og opið hugtak og það heyrist víða. Það er ekki eins
umdeilt og femínismi sem oft er nefndur í sama mund. Það samþykkja ekki
allir að kalla sig femínista en það finnst vart sú sála í dag sem ekki er hlið-
holl jafnrétti kynjanna. Það hversu langt á að þenja út þetta sama jafnrétti
er hins vegar bitbeinið.1 Er hvert smáatriði í menningunni spurning um
jafnrétti eða kemur sumt í þessu lífi öðrum einfaldlega ekki við? Til dæmis
góður brandari sem er ekkert annað en pólitísk rétthugsun að hnýta í?
Jafnréttishugtakið er gjarnan sett í samhengi við hugtakið frelsi í stjórn-
málafræði eða stjórnspeki, eins og stjórnmálaáherslur sveiflist á skala milli
jafnréttis og frelsis. Því meira jafnrétti sem er til staðar, því minna er frels-
ið og öfugt. Bæði þessi hugtök tengjast uppgangi lýðræðissamfélaga órofa
böndum og raunar mætti segja að þau eigi það sameiginlegt með lýðræð-
ishugtakinu að það sé erfitt að vera ekki hlynnt þeim. Sumt fólk myndi
eflaust ganga svo langt að kalla jafnrétti, frelsi og lýðræði gamlar tuggur
sem fela enga merkingu í sér lengur, svo lágur sé samnefnarinn. Að þessar
tuggur hylmi jafnvel yfir það sem raunverulega á sér stað, jafnvel yfir and-
1 Jafnvel þótt seinni orðliðurinn í jafnrétti vísi almennt í réttarhugtak lagakerfisins
notar baráttufólk fyrir jafnrétti og femínisma hugtakið yfir mun víðara samfélags-
svið en lagakerfið á Íslandi. Vegna þessarar málvenju held ég mig við jafnréttishug-
takið og vísa til lagalegs jafnréttis eða jafns réttar þegar beinlínis er vísað til stöðu
okkar gagnvart lögunum. Raunar passar þessi notkun á réttarhugtakinu mjög vel við
lífvaldsgreiningu Foucaults, þar sem hann bendir á í Þekkingarviljanum að fólk noti
réttarhugtakið frekar til að vísa til réttar til lífsins heldur en einhvers konar lagalegs
réttarhugtaks. Michel Foucault, The Will to Knowledge, The History of Sexuality: 1,
þýð. Robert Hurley, London: Penguin Books, 1998 [1976], bls. 145.
Ritið 3/2013, bls. 47–68
nanna hlín halldórsdóttir
Getur leikurinn verið jafn?
Um jafnrétti út frá valdagreiningu Foucaults