Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Side 50
49
legum tengslum og þá sérstaklega þeim sem varða vald. Með því að skoða
tengslin á milli annars vegar okkar eigin (mis)skilnings á valdi og mótandi
áhrifum þess samkvæmt Foucault og hins vegar hinnar frjálslyndu orð-
ræðu um jafnan rétt legg ég til að jafnrétti sé skilið sem eitthvað sem gerist
í valdasamskiptum á þann hátt að aðstaða hvers og eins til þess að beita
valdi sé eins jöfn og mögulegt er. Jafnrétti á ekki að snúast um flokk eða
mengi fyrirfram gefinna skilyrða sem hægt er að uppfylla einhvern daginn
og ýta þá þessu „jafnréttisvandamáli“ úr sögunni; jafnrétti verður ávallt að
fela möguleikann á hinu nýja í sér. Að tryggja sem jöfnust valdasamskipti
er og verður stöðugt verkefni; raunar er fullkomið jafnrétti í samskiptum
ómögulegt þar sem það útilokar vald og margbreytileika.
Jafnrétti hverra?
Nú á dögum virðist margt fólk gjarnan hugsa um femínisma og róttækni
á vinstri vængnum í sömu andrá. Femínismi sem pólitískt afl spratt hins
vegar upp úr hugmyndum frjálslyndisstefnunnar um jafnan rétt allra ein-
staklinga til frelsis.3 Stefnan kom fram þegar ljóst var að raungerving þessa
jafna réttar náði ekki til allra einstaklinga, jafnvel þótt það væri megintil-
gangur hugmyndarinnar um jafnan rétt. Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru
einkunnarorð frönsku byltingarinnar, byltingar borgarastéttarinnar gegn
aðlinum eða aristókrötunum. Guðlegt vald konungsins hélt ekki lengur
vatni, ekki var hægt að nota Guð til þess að réttlæta að einn maður hefði
meiri rétt en aðrir; jafn átti réttur allra að vera.
Frelsi og jafnrétti voru ekki einu hugmyndirnar sem urðu ráðandi með
frjálshyggjunni heldur einnig hugmyndin um skiptingu samfélagsins í hið
opinbera svið og svið einkalífsins.4 Jafnrétti og frelsi voru hugtök hins
opinbera sviðs pólitískrar umræðu, en heimilið og fjölskyldan, sem var svið
kvenna, var utan marka. Þess vegna varð eitt fyrsta baráttumál femínisma
jafn réttur, það er lagalegur réttur kvenna til stjórnmálaþátttöku og sá
réttur sem karlmenn nutu á opinbera sviðinu.5
3 Juliet Mitchell, „Women and Equality“, Feminism and Equality, ritstj. Anne Phillips,
oxford: Basil Blackwell, 1987, bls. 24–43, hér bls. 31.
4 Carole Pateman, „Feminist Critiques of the Public/Private dichotomy“, Feminism
and Equality, ritstj. Anne Phillips, oxford: Basil Blackwell, 1987, bls. 103–126, hér
bls. 103.
5 Anne Phillips, „introduction“, Feminism and Equality, ritstj. Anne Phillips, oxford:
Basil Blackwell, 1987, bls. 1–23, hér bls. 5–6.
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?