Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 51
50
Þannig má segja að femínismi sé í grunninn frjálslyndisstefna. Karl
Marx taldi að ráðandi stétt veldi sér ávallt hugtök sem tjáðu með jákvæðum
hætti stöðu þeirra. Á meðan aðallinn talaði um heiður, dyggð og tryggð
urðu frelsi og jafnrétti hugtök borgarastéttarinnar.6 Femínisminn á 19.
öld hófst einmitt einkum sem borgaraleg stefna með kröfu um kosninga-
rétt. Það voru hvítar millistéttarkonur, sem fæstar þurftu að vinna sjálfar
fyrir sér, sem kröfðust jafns réttar á við karla, kröfðust þess að konur hefðu
sama atvinnufrelsi og karlmenn, þó svo að á sama tíma hafi margar fátæk-
ari konur neyðst til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.7
Femínisminn sótti í sig veðrið með ákveðinni gagnrýni á jafnréttishug-
takið þó svo að hugtakið sjálft hafi verið almennt samþykkt. Í hugmynda-
sögu femínisma er litið til þess hvernig jafnrétti var hugtak fyrstu bylgju
femínisma en undirokun og kúgun hugtök annarrar bylgju, sem felur í sér
gagnrýni á hvíta og efnahagslega forréttindastöðu fulltrúa fyrstu bylgjunn-
ar.8 Raunar gekk róttækur femínismi annarrar bylgjunnar, hugsuðir á borð
við Luce irigaray, svo langt að afneita með öllu jafnréttishugtakinu vegna
þess samanburðar við karlmenn sem var talinn felast í því.9 Þessi afstaða
fól í sér gagnrýni á Simone de Beauvoir en hið áhrifaríka verk hennar Hitt
kynið10 er oft talið hafa átt hvað stærstan hlut í að hafa hrundið af stað ann-
arri bylgjunni. irigaray og fleiri franskir femínistar töldu Beauvoir vera
bundna frjálslyndri hugmynd um jafnrétti sem miðaði að því að konur
fengju sama rétt og karlar án þess að setja spurningarmerki við ráðandi
karlhverfan skilning á veruleikanum.
Frjálslyndisstefna leggur ríka áherslu á einstaklinginn og spratt upp
gegn kúgandi aðstæðum og hugarfari þar sem einstaklingar höfðu mjög
misjafnan tilvistarrétt og sumir hreinlega engan. Því er mikilvægt að hafa í
huga hvernig femínisminn er frjálslyndisstefna en minnast þess jafnframt
að hann hefur einnig gagnrýnt þá stefnu. Einhvers konar frelsi þeirra ein-
staklinga sem falla undir flokkinn konur er nefnilega eitt af aðalstefjum
femínismans.11
6 Michéle Barret, „Marxist-Feminism and the Work of Karl Marx“, Feminism and
Equality, ritstj. Anne Phillips, oxford: Basil Blackwell, 1987, bls. 44–61, hér bls 45.
7 Engu að síður voru til staðar róttækari femínistar eins og Flora Tristan og Sojour-
ner Truth sem bentu á bág kjör, kúgun og ofbeldi meðal fátækra kvenna.
8 Anne Phillips, „introduction“, bls 20.
9 Luce irigaray, Je, Tu, Nous, New york og London: Routledge, 2007, bls. 4.
10 Simone de Beauvoir, The Second Sex, þýð. Constance Borde og Sheila Malovany-
Chevalier, London: Vintage Books, 2011 [1949].
11 Carole Pateman, „Feminist Critiques of the Public/Private dichotomy“, bls. 103.
nanna hlín hallDóRsDóttiR