Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 55
54
unda áratugnum. Þessa mótandi virkni valds taldi Foucault vera það sem
einkenndi formgerð eða gangverk valds í nútímasamfélögum. Þegar talað
er um formgerð valds er ekki beinlínis verið að nefna einstaka valdasam-
skipti heldur það samfélagsform sem skilyrðir samskiptin. Þegar mótunin
er mikil er skilyrðingin einnig afar mikil, þ.e. hvernig við högum okkur
og bregðumst við í samskiptum við aðra er að miklu leyti mótað af þeim
stofnunum samfélags sem við tilheyrum og höfum tilheyrt. Þessi mótandi
formgerð valds er alla jafna kennd við lífvald.22
Formgerð valds er mikilvæg í valdagreiningu Foucaults en hún felst
ekki síður í valdi sem tengslum við aðra. Í „Sjálfsveru og valdi“23 sem kom
út árið 1982 útlistar Foucault á knappan hátt kjarna þeirrar virkni sem felst
í valdatengslum:
Það sem skilgreinir valdasamband er að það er sá háttur gjörða
sem orkar ekki beint og milliliðalaust á aðra. Í staðinn orkar hann á
gjörðir þeirra: gjörð á gjörð; á gjörðir sem þegar eru til staðar eða á
þær sem geta komið fram á núlíðandi stund eða í framtíðinni.24
Slík valdasambönd má finna alls staðar; raunar er ekki hægt að komast hjá
valdasamskiptum vilji maður lifa í samfélagi manna. Í samskiptum við aðra
tekur maður óhjákvæmilega þátt í valdatengslum, það er ávallt einhver að
hafa áhrif á gjörðir annarra.
Í þeim anda Friedrichs Nietzsche að leggja áherslu á mátt í samskiptum,
lýsir Foucault valdi sem ákveðnum hreyfihvata í samskiptum sem veldur
stöðugu róti vegna þess að valdatengsl á milli ólíkra aðila eru aldrei jöfn. Ef
hægt er að tilgreina einstaka valdasamskipti þá er alltaf einhver sem „hefur
vinninginn“. En um leið og sá aðili heldur að hann hafi boltann í hendi sér
hefur einhver annar áhrif á hann og nýtt valdaástand verður til.25
Þó er mikilvægt að undirstrika að ekki eru öll samskipti valdatengsl;
maður getur tekið þátt í samskiptum sem eru til þess eins ætluð að koma
upplýsingum á framfæri, en slík gerð samskipta getur þó einnig falið í sér
22 Michel Foucault, The Will to Knowledge, bls. 89–90 og 140–143.
23 Michel Foucault, „The Subject and Power“, Michel Foucault: Beyond Structural-
ism and Hermeneutics, ritstj. Hubert L. dreyfus og Paul Rabinow, Chicago: The
University of Chicago Press, 1982.
24 Sama heimild, bls. 220.
25 Michel Foucault, The Will to Knowledge, bls. 93.
nanna hlín hallDóRsDóttiR