Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 62
61
Það eru normin eða venjurnar sem skilyrða virkni lagakerfisins á þennan
hátt. Foucault orðaði það á þann hátt að norm „taki yfir lífið“.52 Raunar
bendir hann einnig á að í dag hafa lög í raun orðið að normum sem eru
fest í lög; þ.e. þau snúast ekki aðeins um að hindra mann í að gera eitthvað
eða setja bann, heldur einnig að hvetja til ákveðinnar hegðunar frekar en
annarrar. Það voru ekki lögin sem mótuðu hið reglubundna kerfi ríkisins
og hversdagsleika okkar, það voru miklu frekar normin sem urðu yfirgnæf-
andi við ris lífvaldsins.
Það sem skiptir máli fyrir þessa umfjöllun er að við sjáum lög fyrst og
fremst sem hindrandi afl á meðan virkni þeirra mótar líf okkar eftir norm-
um.
Við ættum ekki að láta allar þær stjórnarskrár sem hafa verið gerðar
í heiminum síðan í frönsku byltingunni blekkja okkur eða þær laga-
umbætur sem komið hafa í kjölfar háværra mótmæla; það var þessi
lagalega þróun sem gerði það að verkum að fólk gat fellt sig við hið
normalíserandi vald.53
Judith Butler sem vinnur í anda Foucaults bendir á að við fyllumst stolti
yfir að fylgja normunum, þau séu leið okkar til þess að öðlast einhvers
konar skilning á okkur sjálfum. Þau geri okkur kleift að sjá okkur eins og
við höldum eða viljum að við séum.54 Norm eru okkur ekki framandi eins
og lög geta verið þegar þau koma okkur ekki við að öðru leyti en því að
setja okkur skorður. Við gerum norm að okkar eigin lífsreglum eins og séu
þau algerlega okkar eigin afurð; við innfærum stýringu lífvaldsins. Þessar
hugmyndir Butler ríma mjög við hugmynd Gilles deleuze um stjórnun en í
greininni „Af nýju lífvaldi“ útskýrir Hjörleifur Finnsson þá hugmynd vel:
Stýringasamfélagið stjórnar í gegnum sjálfstjórn sjálfsveranna
sjálfra. En til þess að það sé hægt þarf að framleiða sjálfsverurnar
og samfélag þeirra á ákveðinn hátt. Forsenda þess að sjálfsverurnar
stýri sér sjálfar er að þær upplifi sig sem frjálsar og það krefst þess að
afhólfuð rými agaðrar framleiðslu leysist upp. Eftir því sem sjálfs-
verurnar verða frjálsari eru fleiri mörk látin falla.55
52 Michel Foucault, The Will to Knowledge, bls. 144.
53 Sama heimild, bls. 144.
54 Judith Butler, „Bodies and Power revisited“, Radical Philosophy 2002, bls. 190.
55 Hjörleifur Finnsson, „Af nýju lífvaldi“, Hugur 2003, bls. 174–195, hér bls. 178.
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?