Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 63
62
Frelsi í þessum skilningi virðist því í raun þýða minni gagnrýni á normin.
Aðalávinningur þess að vald hylji starfsemi sína virðist vera að andóf sjálfs-
vera í valdasamskiptum verður fyrir vikið ekki eins mikið og það gæti verið.
Valdatengslin verða kannski stöðugri, en á sama tíma mun ójafnari á milli
ólíkra gerenda. Af þessu er hægt að álykta að ef við myndum gera okkur
grein fyrir því að hugmynd okkar um frelsi er í raun stýring, myndum við
án efa sýna meira andóf enda mikilvægur hluti sjálfsmyndar okkar fólgin í
að við séum frjáls. En hvernig stendur á því að þróast hafa samfélagsform
sem viðhalda þessari blekkingu?
Foucault leggur ávallt áherslu á vettvang hins smásæja (e. micro-level)
og á ólíkar þarfir gerenda, sem oft eru í mótsögn. Af þessu spretta upp
óteljandi ólík samskiptaform, mörg hver valdasamskiptaform. Um leið
og eitthvert þeirra samskiptaforma birtist sem er efnahagslega í hag þeim
sem eru í ráðandi stöðu í valdatengslum þá verða það hagsmunir þess hóps
(án þess að það þurfi að vera meðvitað hjá einstaklingum hópsins) að við-
halda þeim. Þannig býr ráðandi hópur ekki til þessi gangverk valds heldur
viðheldur frekar þeim sem fyrir eru. Foucault sjálfur greindi þessi atriði í
tengslum við geðveiki og kynvitund auk refsikerfisins:
Það sem í raun gerðist í staðinn var að gangverk útilokunar geðveiki
og eftirlit með kynvitund barna byrjaði á ákveðnum tímapunkti, og
vegna ástæðna sem þarf að rannsaka, að afhjúpa pólitíska nytsemi og
stuðla að efnahagslegum gróða. Eins og um náttúrulega afleiðingu
væri að ræða, tóku þessi gangverk sér því bólfestu og var viðhaldið af
hnattrænum gangverkum og öllu ríkiskerfinu.56
Alls konar hugmyndir spretta upp á hinum smásæja vettvangi samfélags-
ins, sumar óviðkomandi hvers konar pólitískri nytsemi á meðan aðrar
eru til mikilla nytja við að halda óbreyttu ástandi.57 Foucault bendir á að
margar hugmyndir sem kynntar voru sem frelsisumbætur hafi í raun geng-
ið út á meiri stýringu. dæmi um slíka hugmynd gæti hæglega verið það
kynferðis lega frelsi kvenna sem spratt upp úr annarri bylgju femínisma.
56 Michel Foucoult, „Two Lectures“, bls. 101, skáletrun er mín.
57 Þetta þýðir samt sem áður að erfitt sé að staðsetja gerandavirknina. Ef borg-
arastéttinni eða einstaklingi eða sjálfsveru af þeirri stétt er eignuð gerandavirkni
þá gæti hún/hann í einlægni trúað, þrátt fyrir að vera jafnvel mikilvægur meðlim-
ur ríkiskerfisins, að þau gangverk valds sem eru að störfum í fangelsunum hjálpi
föngunum á veginum til betrunar þegar þau eru í raun og veru að búa til stétt
smá afbrotamanna, svo dæmi sé tekið.
nanna hlín hallDóRsDóttiR