Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 68
67
staðla. Það er möguleikinn í útópíunni sem skiptir máli en ekki endilega að
hún raungerist í hefðbundinni draumaútópíu.
Þannig er sú hugsun sem skilgreinir jafnrétti út frá fyrirfram gefnum
ramma, sem ekki þarf að breyta, í raun líkleg til að hylma yfir nýjar gerðir
ójöfnuðar og fordóma. Ef jöfn laun kynjanna væru til dæmis mælikvarðinn
og ef því marki yrði einhvern daginn náð gæti sá mælikvarði komið í veg
fyrir að við sæjum nýjar gerðir ójöfnuðar í launa- og efnahagsmálum. Sé
jafnrétti hins vegar skilgreint út frá tengslum gefur það möguleika á ein-
hverju nýju.
Það er þó einmitt vegna þessa útópíska blæs á jafnréttishugtakinu sem
ávallt er sértækt í notkun okkar, að einnig ríkir ákveðin hætta á mis- eða
ofnotkun hugtaksins. Jafnrétti er og verður hugtak sem á að lýsa einhverju
sem kannski er ekki hægt að lýsa í orði og á alltaf á hættu að þjónusta
stirðnaða fyrirfram skilgreinda ramma.
Það hversu vel þetta vald „flæðir“ í samskiptum fer eftir jafnrétti. Ef
annar gerandinn hefur afgerandi yfirráðastöðu sem honum hefur verið
úthlutað af samfélaginu þá hefur hann eflaust vinninginn í að koma sínum
sjónarmiðum og hagsmunum á framfæri. Hins vegar jafnast leikar og ger-
ast spennandi þegar samfélagið gerir þeim jafnari stöðu mögulega.
Ú T d R Á T T U R
Getur leikurinn verið jafn? Um jafnrétti út frá valdagreiningu Foucaults
Í þessari grein er leitast við að skilgreina hugtakið jafnrétti út frá valdagreiningu
Michels Foucault og þá aðallega áherslu hans á vald sem tengsl. Í hugmyndasögu
femínískra kenninga er jafnrétti séð sem andstætt margbreytileika en þar að auki
er jafnrétti mikilvægt hugtak pólitískrar frjálslyndisstefnu; í beinum tengslum við
lagakerfi réttarríkisins. Samkvæmt Foucault er ákveðin missýn á valdahugtakið ráð-
andi; sjálfsverur sjá vald sem eitthvað sem setur lífi þeirra skorður þegar það mótar í
raun líf fólks í vestrænum nútímasamfélögum; nútímaformgerð valds er lífvald. Til
þess að sjá jafnrétti í nýju ljósi er mikilvægt að huga að því hvaða sjálfsverumótun
þetta leiðir af sér; hvernig hún bæði býr til og gerir okkur erfiðara fyrir að sjá marg-
víslegan ójöfnuð. Í anda Foucaults verður hvatt til nýrra gerða sjálfsveruhátta sem
hafa andóf að leiðarljósi, þar sem hugað er að jafnrétti í öllum tengslum er varða
vald. Samkvæmt greiningu Foucaults er jafnrétti hins vegar ómögulegt í einstaka
valdatengslum – en frekar en að það afskrifi jafnréttishugtakið tel ég að sá jákvæði,
útópíski blær sem felst í hugtakinu sé okkur mikilvægur til að sjá sífellt möguleikann
á hinu nýja hvað varðar valdatengsl, jafnrétti og mismunun hvers konar.
Lykilorð: Jafnrétti, vald, sjálfsvera, Foucault, femínismi
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?