Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 78
77
Sannfærandi rödd höfundar sem sérfræðings er lykilatriði í fræðaskrifum
á ensku og vantar oft í texta þeirra sem skrifa á ensku sem samskiptamáli,
þ.e. tónn textans samræmist ekki enskum rithefðum. Hér má t.d. benda á
að á ensku virðist mun fastar kveðið að orði en t.d. í íslenskum fræðigrein-
um. ofan á þetta bætist síðan að orðræða hvers fræðasviðs er ekki ein-
göngu menningarbundin heldur einnig fagbundin og breytileg.34 oft er
það því orðræðan sjálf, framsetning, skipulag og tónn sem skilur að texta á
ensku sem samskiptamáli og ensku sem móðurmáli, engu síður en málfar
og málfræði. Þessi munur er breytilegur eftir fræðigreinum en auðveldast
virðist vera að fylgja ritunarhefðum í raunvísindum þar sem orðræðan er
oft staðlaðri og minna svigrúm til túlkunar en orðræða í hug- og félags-
vísindum og þessi munur milli orðræðuhefða fræðasviða er meiri en milli
ritunarhefða mismunandi tungumála.35
Viðamiklar rannsóknir Lillis o.fl. á útgáfuferli greina eftir fræðimenn
sem notuðu ensku sem samskiptamál sýndu greinilega að sjaldnar var vísað
í fræðigreinar sem skrifaðar voru á öðrum tungumálum en ensku en í
greinar á ensku. Var höfundum bent á að vísa ekki of mikið í slíkar rann-
sóknir á þeirri forsendu að þær væru ekki aðgengilegar.36
Þá leiddu rannsóknir Lillis og Curry í ljós að tilvitnanir í rannsóknir
sem þótti rétt og viðeigandi að vísa í breyttust í rýniferlinu og því gat
fræðilegur grunnur (e. literature review) rannsóknar breyst mikið þegar
verið var að fara yfir greinarnar af „native speakers“ eða læsismiðlurum37
til að gera þær birtingarhæfar í fræðiritum sem gefin eru út á ensku. Lillis
o.fl. komust að því að greinarnar fóru þannig gjarnan í gegnum allmiklar
breytingar, ekki bara hvað varðar form og framsetningu, heldur gátu einn-
ig orðið breytingar á innihaldi og áherslum, stundum allmiklar frá upp-
haflegu inntaki greinarinnar og ætlan höfundar.38
34 Sjá Kersti Fløttum, Trine dahl og Torodd Kinn, Academic voices, Philadelphia: John
Benjamins, 2006 og Hafdísi ingvarsdóttur og Birnu Arnbjörnsdóttur, „ELF and
academic writing: a perspective from the Expanding Circle“.
35 Anna Mauranen, „Contrastive ESP rhetoric: Metatext in Finnish-English econo-
mics texts“, English for Specific Purposes 1/1993, bls. 3–22; Kersti Fløttum, Trine
dahl og Torodd Kinn, Academic voices, Philadelphia: John Benjamins, 2006; Charles
Bazerman, „Genre and cognitive development: Beyond writing to learn“, Practi-
ques, desember 2009, bls. 127–138.
36 Theresa Lillis og Mary Jane Curry, Academic writing in a global context. London:
Routledge, 2010.
37 Sama rit, bls. 21.
38 Sama rit.
GÍFURLEG ÁSKoRUN