Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 79
78
Turner kallar eftir endurskoðun á því sem nú er kallað prófarkalestur
því að oft felst í slíku veruleg ritstýring á textum og ef vel á að vera þarf
prófarkalesarinn að vera sérfræðingur í faginu, auk þess að vera sérfræð-
ingur í viðkomandi tungumáli, með tilheyrandi kostnaði fyrir þann sem
kaupir yfirlesturinn.39 Turner og einnig Lillis o.fl. benda þannig á ójafna
stöðu þeirra sem skrifa á ensku sem samskiptamáli og þeirra sem hafa
ensku að móðurmáli.
Höfundum lék forvitni á að vita nánar hvaða afstöðu íslenskir fræði-
menn hefðu til greinaskrifa á ensku. Þeim viðhorfum verður lýst í næsta
kafla.
5. Rannsóknin: Viðtöl við fræðimenn um enskunotkun
Í ljósi niðurstöðu viðhorfakönnunar meðal háskólakennara fannst höfund-
um mikilvægt að skoða nánar viðhorf íslenskra fræðimanna til fræðaskrifa
á ensku. Vorið 2011 var spurningakönnuninni, sem áður er lýst, fylgt eftir
með viðtölum við 10 akademíska starfsmenn, tvo af hverju fræðasviði, karl
og konu. Markmiðið var að dýpka svörin úr spurningakönnuninni og leita
skýringa á ýmsum þáttum sem fram höfðu komið í megindlega þættinum.
Viðtölin voru því að hluta byggð á efni spurningakönnunarinnar.
Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru settar fram:
Hvaða afstöðu hafa fræðimennirnir til ritunar fræðigreina á ensku? 1.
Hversu vel telja fræðimennirnir sig búna undir að skrifa fræðigrein-2.
ar á ensku og má merkja mun eftir fræðasviðum?
Hversu mikla aðstoð, ef einhverja, telja fræðimenn sig þurfa við 3.
fræðaskrif á ensku og hvert leita þeir þá eftir aðstoð?
Viðtölin voru hálfopin og í stað spurningalista var stuðst við spurninga-
ramma sem gaf færi á meira svigrúmi bæði fyrir spyrjanda og viðmælanda.
Við val á þátttakendum var reynt að hafa góða aldursdreifingu til að fá
fram dæmi um viðhorf bæði eldri og yngri fræðimanna og jafn margar
konur og karla. Viðtölin voru tekin upp og síðan afrituð orðrétt og kóðuð,
þéttuð (e. meaning condensation) og þá dregnir fram meginþræðir í máli
39 Joan Turner, „Supporting Academic Literacy: issues of Proofreading and Language
Proficiency?“, Developing Academic Literacy, ritstj. George Blue, Bern: Peter Lang,
2010, bls. 39–51.
BiRna aRnBjöRnsDóttiR og hafDís ingVaRsDóttiR