Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Qupperneq 93
92
bæris sem talið er skylt henni og kannski mætti kalla til bráðabirgða „ann-
ars stigs birtingarmyndir“ (e. second order representations; metarepresenta-
tions)21 eða „heimildamyndir“, þ.e. birtingarmyndir af birtingarmyndum,
þar sem bæði er tiltekin heimild og inntak. Málið snýst í sem stystu máli
um hvernig menn fylgjast með heimildum að baki upplýsingum sem þeir
fá og geyma í huga sínum – og sömuleiðis um að þeir geti endurskoðað
upplýsingarnar. Segjum að tiltekin kona, Sigríður, sem er þekkt fyrir að
leggja fólki gott til, segi við vinkonur sínar: „ég held að þið ættuð að vara
ykkur á nýju konunni hans Guðmundar.“ Vinkonurnar festa sér í minni
upplýsingarnar og af því að þær þekkja Sigríði taka þær nýju konunni
kannski með vara. En reynist inntak birtingarmyndarinnar sem um ræðir,
þ.e. nýja konan, prýðilegt, er eins víst að þær endurskoði ekki bara afstöðu
sína til þess heldur taki minna mark á heimildinni (Sigríði) í framtíðinni.
Zunshine heldur því fram að allar bókmenntir séu í raun „heimilda-
myndir“, þ. e. upplýsingar þar sem heimildin er þessi eða hinn höfund-
urinn. Sumar frásagnir telur hún að beini einkum sjónum að „heimilda-
myndahæfni“ persónanna þannig að lykilatriði í þeim sé t.d. að persónurnar
ráði ekki við að fylgjast með heimildum birtingarmyndanna eða verði að
endurskoða ýmislegt sem þær töldu gefið. Aðrar frásagnir, þær sem hafa
sögumann sem reynist ótrúverðugur, geri hins vegar út á að bæði lesend-
um og persónum bregðist sú bogalist að fylgjast með heimildum. Meðal
dæma sem hún tekur um það er Lolita Nabokovs en hún bendir þá líka á
að Nabokov geri hvort tveggja í senn, blekki lesendur og komi í veg fyrir
að þeir láti blekkjast.22
Nabokov hefur verið talinn höfundur „frumspekilegra leynilögreglu-
sagna“ (e. metaphysical detective stories).23 Til þess vitnar Zunshine enda
gerir hún leynilögreglusöguna (e. detective story) að sérstöku umræðuefni.
Hún telur að síendurtekin einkenni hennar – þar með taldar „efnislegar
vísbendingar“ (e. material clues), áherslan sem hún leggur á að lesendur
tortryggi allar persónur, og umdeild tengsl hennar við rómantíska fléttu
21 dan Sperber, „introduction“, Metarepresentations, A Multidisciplinary Perspective,
ritstj. dan Sperber, oxford og New york: oxford University Press, 2000, bls. 3. −
orðið representation flækist sennilega oftar en ekki fyrir manni í þýðingum og ekki
bætir forskeytið meta- úr skák.
22 Lisa Zunshine, Why We Read Fiction, bls. 113.
23 Sjá t.d. Patricia Merivale og Susan Elizabeth Sweeney „The Games Afoot, on the
Trail of the Metaphysical detective Story“, Detecting Texts, The Metaphysical Detective
Story from Poe to Postmodernism, ritstj. Patricia Merivale og Susan Elizabeth Sweeney,
Philadelphia, Pennsylvania: University of Pennsylvania Press, 1999, bls. 7.
BeRgljót soffía KRistjánsDóttiR