Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Side 105
104
menntir t.d. sem vísbending um hvers konar frásögn saga hans sé, sbr. það
sem fyrr var sagt um Þúsund og eina nótt. Áþekku hlutverki og „samtals-
aðferðin“ – sem er í anda módernískra verka − gegnir það þegar spilað er á
ýmissa þekkingu lesenda á vinsældabókmenntum almennt. Valbrá á andliti
karlmanns er t.d. látin gera hann tortryggilegan og sérkennileg skrift eða
raddblær eru látin benda til að kona villi á sér heimildir.
Misjafnt er hve auðvelt er að tengja vísbendingarnar hugarlestri þó að
auðveldlega megi halda því fram að þær séu „heimildamyndir“ um höf-
undinn Jóhann Magnús. En sögumaður lýsir einatt nákvæmlega áhrifum
annarra persóna á sig og einhverjir – þar á meðal Zunshine!59 − kynnu
að vilja líta á það sem vísbendingar er ýttu undir hugarlestur. Sögumaður
gerir þá gjarna grein fyrir útliti persónanna, rödd og/eða látæði, og fylgir
lýsingunum jafnvel eftir með líkingum, sumum ansi áhrifamiklum. Þegar
hann hittir ungfrú Harrington fyrsta sinni segir hann t.d.:
ég tók eftir því að rödd hennar var ekki þýð, og að orðin hrutu
af vörum hennar hryssingslega, kaldranalega og dræmt, og létu í
eyrum mínum eins og þung haglkorn á húsþaki í byrjun óveðurs.
[…]
Ungfrú Harrington leit sem snöggvast til mín. Það var eins og
eldur brynni úr augum hennar, og ég sá, að hún skipti litum og yppti
öxlum ofurlítið. […]
Mér duldist það ekki, að henni var meira en lítið illa við mig, því
að stingandi augnaráð hennar lýsti meira en tómri fyrirlitningu, −
það lýsti djúpu hatri. Samt var mér það alveg óskiljanlegt, af hverju
hún gat hatað mig. (6−7)
Mér þykir ljóst að í slíkum tilvikum leitist sögumaður við að miðla
líkamsupplifun sem nemur umsvifalaust afstöðu og líðan annarra. Geti lík-
ingar verið „taugahlekkur“ (e. neural link) milli skynhreyfireynslu og hugs-
unar eins og George Lakoff og Mark Johnson halda fram, styrkir það
skoðun mína.60 En líkamsáhrifin á lesendur ráðast á annan veg en hjá
59 Zunshine telur að gamla aðferðin að lýsa útliti og hátterni persóna sé lesendum svo
kunn að meðvitað eða ómeðvitað geri þeir ráð fyrir að þeir eigi að lesa hugarástand
úr slíkum lýsingum. Sjá Lisa Zunshine, Why We Read Fiction, bls. 147.
60 George Lakoff og Mark Johnson, Philosophy in the Flesh, The Embodied Mind and Its
Challenge to Western Thought, New york: Basic Books, 1999, bls. 555−556. – Tekið
skal fram að Lakoff og Johnson eru hér sérstaklega að tala um svokallaðar grunn-
líkingar (e. primary metaphors) – en það er ekki meginatriði í samhenginu.
BeRgljót soffía KRistjánsDóttiR