Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Qupperneq 107
106
En frásögnin af miðilsfundinum orkar grallaraleg þegar hugsað er
um ýmsa atburði á Íslandi á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Árið áður en
„Ungfrú Harrington og ég“ kom út, hélt Einar H. Kvaran, skáld og blaða-
maður, t.d. þrjá fyrirlestra í Reykjavík. Eftir fyrsta lesturinn var sérstaklega
tekið fram í Ísafold að Einar hefði alls ekki komið inn á andatrú, eins og
blaðið Ingólfur hefði mishermt, heldur hugsanaflutning eða fjarskyggni.
Þetta taldi Ísafold brýnt að leiðrétta „af því að margt fólk er svo gert að það
mundi fælast frá að hlusta á erindi þessi ef það kæmist inn hjá því að þau
fjölluðu um „andatrú““.62 Fáeinum árum fyrr, eða 1904 og 1905, vakti líka
umtal saga, sem kom út í íslenskri þýðingu, Hættulegur leikur eftir Arthur
Conan doyle, en þar er miðilsfundur í brennidepli og hugsanir holdgerast
jafnvel.63 Enda þótt doyle yrði ekki opinskár talsmaður spíritisma fyrr en
seinna fer trúin á yfirnáttúruleg fyrirbrigði í sögunni ekki milli mála.64
Forsendur hafa því verið til þess að einhverjir meðal fyrstu lesenda sögu
Jóhanns Magnúsar teldu sjálfsagt að blaðamaður tryði á fjarskyggni, og/
eða þeir tengdu leynilögreglusöguna og yfirnáttúruleg fyrirbæri vegna
höfundarins Arthurs Conans doyle. En stráksskapurinn í frásögninni af
miðilsfundinum felst öðru fremur í því að „uppljóstrun“, sem í leynilög-
reglusögunni byggir gjarna á beinhörðum sönnunargögnum, ræðst af því
sem ekki verður sannað, þ.e. dulrænum hæfileikum eða hugsanaflutn-
ingi.65 og ætla má að glettnin sem skín af frásögninni hafi allt frá upphafi
orðið til þess að einhverjir hikuðu við að bíta á glæpasöguagnið sem lagt
er út fyrir þá.
En það leynist fleira í pokahorni Jóhanns Magnúsar. Meðal þess eru
frásagnarhlutarnir sex. Þeir gefa tilefni til að sagan sé ekki lesin í einu lagi;
það er t.d. auðvelt að sjá fyrir sér erfiðismann – segjum í einhverju lestrar-
62 Ísafold, 20. nóv. 1909, bls. 302. – Skýringin á athugasemd blaðsins er eflaust ekki síst
andstaða ýmissa lúterstrúarmanna við spíritisma sem einnig kann að hafa markað
viðbrögð manna við sögunni „Ungfrú Harrington og ég“.
63 Sjá Arthur Conan doyle, Hættulegur leikur, Reykjavík: Félagsprentsmiðjan,
1904.
64 Sjá Andrew Lycett, The Man Who Created Sherlock Holmes, The Life and Times of Sir
Arthur Conan Doyle, New york: Free Press, 2007, bls. 391.
65 Vert er að nefna að meðal undirgreina leynilögreglusögunnar hefur verið talin
„hin dulræna“ (e. occult) þar sem spæjarinn starfar á mærum þessa heims og annars
og setur spurningarmerki við aðgreiningu heimanna tveggja. Þessi grein er rakin
til seinni hlutaViktoríutímabilsins, sjá Srdjan Smaji, „introduction“, Ghost-Seers,
Detectives, and Spiritualists,Theories of Vision in Victorian Literature and Science, Cam-
bridge Books online, http://dx.doi.org/10.1017/CBo9780511712012, [sótt 10.
júní 2013], bls. 8.
BeRgljót soffía KRistjánsDóttiR