Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 122
121
að hvernig Tyrkjaránið varð hluti af sameiginlegri minningu staðbundinna
hópa, íslensku þjóðarinnar og hugsanlega stærra mengis. Gætt er að því
hvernig minningin um ránið mótast af því að vera eftir trámatískan atburð.
Þá er kannað hvernig fjallað hefur verið um Tyrkjaránið sem þjóðfélags-
lega minningu og það samhengi sem það hefur verið sett í á mismunandi
tímum og af ýmsum öflum. Loks er hugað að því hvaða breytingum hin
sameiginlega minning er að taka og hvort hún geti orðið hnattrænni og
þvermenningarlegri.
Þungamiðja allrar umfjöllunar – minninga og sögu – um Tyrkjaránið
eru frásagnir þriggja nafngreindra manna sem ritaðar voru skömmu eftir
að atburðirnir áttu sér stað. Hér er í fyrsta lagi um að ræða lýsingu Kláusar
Eyjólfssonar lögréttumanns og bónda í Landeyjum sem hann skráði óðara
en ránsmenn voru á brott og byggði hana annars vegar á samtölum við þá
sem komust undan og hins vegar á eigin athugun á ummerkjum á vett-
vangi í Vestmannaeyjum. Í báðum tilvikum liggur í augum uppi að skynjun
og minni einstaklinganna féll að hinum „félagslegu römmum“ sem frum-
kvöðullinn í minningafræðum, Maurice Halbwachs, kvað minnið hljóta
að lúta, þ.e. væntingum, viðhorfum, hefðum o.fl.,4 í þessu dæmi eink-
um trúarlegum forhugmyndum, skelfingu augnabliksins o.s.frv. önnur
megin frásagan er Reisubók séra Ólafs Egilssonar en í henni lýsir hann her-
leiðingu sinni til Algeirsborgar sumarið 1627, allt þar til hann kom aftur til
Vestmannaeyja árið eftir. Mest eru þetta eigin minningar Ólafs sem mót-
ast af ákveðinni bókmenntategund, aldri og trúartrausti höfundarins, við-
leitni til að svala forvitni áheyrenda o.fl. Loks er að nefna Tyrkjaránssögu
Björns Jónssonar frá Skarðsá sem hann vann upp úr áðurnefndum frásögn-
um Kláusar og Ólafs auk fleiri ritaðra sagna og sendibréfa sem sum hver
eru glötuð en voru Birni aðgengileg.5 Meginfrásagnirnar þrjár bárust um
landið í afskriftum og tryggðu að jafnan var staðgóð vitneskja til um hina
örlagaþrungnu atburði.
4 Maurice Halbwachs, „The Social Frameworks of Memory“, On Collective Memory,
ritstj. Lewis A. Coser, Chicago & London: The University of Chicago Press, 1992,
bls. 37–189.
5 Flestar þessara íslensku frásagna gengu lengst af í handskrifuðum afritum en
Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður gaf þær út á prenti í vandaðri útgáfu í byrjun
20. aldar: Tyrkjaránið á Íslandi 1627, ritstj. Jón Þorkelsson, Reykjavík: Sögufélag
1906–1909.
tYRKjaRániÐ sem minning