Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 123
122
Tyrkjaránið verður þjóðminning og staðarminning
Tyrkjaránssaga Björns Jónssonar var yfirlitssaga rituð að beiðni Hóla-
biskups. Henni var ætlað að móta sameiginlega minningu þjóðarinnar
um atburðina því álitið var að þeir kæmu allri þjóðinni við. Þetta viðhorf
kom raunar snemma fram og birtist m.a. í því að biskupar landsins og
alþingi gerðu málið að sínu og efndu í kirkjum landsins til söfnunar fyrir
útlausn hinna herteknu í samvinnu við danska konungsvaldið og að hvatn-
ingu þess. Hins vegar varð þjóðminningin til með því móti að frásögur og
kvæði um ránið voru rituð og bárust víða um landið. Á Felli í Skagafirði
voru ortar rímur um ránið, í Skálholti voru skráðar frásagnir skólapilta
af ráninu á Austfjörðum og á Hólum lét biskup taka saman yfirlitssögu
Tyrkjaránsins. Ritunarstaðir frásagnanna voru því engan veginn takmark-
aðir við sögusvið ránsins.
Það er ekki sjálfsagður hlutur að staðbundinn atburður verði að mál-
efni þjóðar, að þjóðminningu. Þegar borið er saman við skyld „tyrkjarán“
í Færeyjum 1629 og á Írlandi 1631 kemur í ljós að minningin um þau varð
ekki að þjóðareign eins og raunin varð á Íslandi.6 Vitneskjan um ránin í
Hvalbø á Suðurey í Færeyjum og í Baltimore á Írlandi varð alls ekki nein
almannaeign þar um slóðir og má skýra það með nokkrum þáttum. Í fyrsta
lagi virðist ljóst að Ísland hefur verið samstæðari menningarleg heild en
hin löndin tvö. Nægir að benda þar á mállýskumun sem er miklu meiri í
Færeyjum og á Írlandi en á Íslandi. Þetta er almenn menningarleg skýring.
Í öðru lagi eru skýringar sem varða Tyrkjaránin sjálf í löndunum þrem.
Ránið á Íslandi var stórfelldara en á hinum stöðunum, náði til fleiri svæða,
stóð lengur og fórnarlömbin, fallnir og herteknir, voru fleiri (um 1% þjóð-
arinnar). Í þriðja lagi má halda því fram að stjórnkerfið hafi verið skilvirk-
ara á Íslandi en á Írlandi og í Færeyjum. Kirkjuyfirvöld og konungsvald
tóku málið í sínar hendur (eftir nokkra umræðu og efasemdaraddir) og eru
biskuparnir oddur Einarsson og Þorlákur Skúlason áberandi í þessu verki
en einnig danska kirkjan og embættiskerfi konungs.
Í formála Tyrkjaránssögu sinnar greinir Björn Jónsson frá tilgangi
hennar og vilja húsbónda síns, biskupsins, í því efni. Ritunin gegnir aug-
ljóslega þjóðfélagslegum og trúarlegum tilgangi (og ber hvort tveggja
mjög að sama brunni):
6 Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn?“, Saga 3/1995, bls. 110–134;
Þorsteinn Helgason (handrit og stjórn), Atlantic Jihad, heimildamynd fyrir sjón-
varp, Reykjavík: Seylan, Avro, TG4, 2003.
ÞoRsteinn helgason