Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 129
128
kennslubók sinni fyrir Skálholtspilta í bundnu máli á latínu, Eclogarium
Islandicum historico-metricum. Jón glímdi við þunglyndi á þessum tíma og
segist hafa sett þetta námsefni saman með harmkvælum, inter tormenta.
Jón Þorsteinsson sálmaskáld og leit hans að andlegum verðmætum eru
þungamiðjan í frásögninni.18
Viðhorf og afstaða seinni tíma fólks til atburðar sem átti sér stað árið
1627 getur verið gildur og marktækur þáttur í umfjöllun um atburðina.
Sjónarmið þeirra sem setja sig vel inn í aðstæður, eru tengdir böndum til-
finninga og/eða skyldleika við atburðina, eru innlegg í frásögn af atburð-
unum, sennileika þess sem gerðist og mat á vægi þeirra og túlkun. Í tilviki
Vestmannaeyja og Austurlands getur þessi skynjun sprottið af landslaginu,
mannvirkjum og ímyndun og innlifun í frásagnir. Í Vestmannaeyjum er
sögusviðið sérstaklega ágengt þar sem byggðin er samþjöppuð og land-
svæði lítið.
Jón Jónsson (Vestmann) horfði á föður sinn, séra Jón Þorsteinsson,
höggvinn í helli í Vestmannaeyjum árið 1627 þegar hann var barn að
aldri.19 Minning hans sjálfs um þessa atburði er ekki skjalfest og varðveitt
en um ævi hans höfum við afmörkuð atriði sem gefa okkur tilefni til sam-
hygðar. Barn í Vestmannaeyjum á 20. öld, sem hugleiðir þessar aðstæður í
upprifjun seinni ára, getur lagt innlifun sína til málanna sem það byggir að
sumu leyti á sömu þáttum og Jón Vestmann bjó yfir, þ.e. staðkunnáttunni
og almennri hæfni sinni til að lifa sig inn í tengsl og tengslarof við foreldra,
harm, söknuð og fleiri þætti. Þannig hugleiðir Björg Sigurðardóttir (f.
1945) minningu sína og annarra Vestmannaeyinga árið 2004:
Mín reynsla er sú að fólk á mínum aldri og næstu kynslóðir á undan
hafi fengið vitneskju um Tyrkjaránið með móðurmjólkinni og upp-
lifað á vissan hátt þá atburði sem sagan segir frá. Leikir okkar krakka
fóru oft fram á þeim stöðum sem tengjast ráninu og litaði það oft
athafnir okkar. Saga séra Jóns Þorsteinssonar og hans fólks varð
mér líka mjög hugleikin fyrir það að ég bar lengi út fundarboð fyrir
afa minn, m.a. „upp á bæi“ sem kallað var og tók þá oft aukahring
austur fyrir Kirkjubæ. Var það ákveðin tilraun mín að „tengjast“
atburðunum. Einnig var faðir minn bjargsigsmaður og seig oft þar
18 Ævisaga Jóns Þorkelssonar skólameistara í Skálholti 2, Reykjavík: Prentsmiðjan Guten-
berg, 1910, bls. 172–173.
19 Þetta er skjalfest með mismunandi hætti í afritum af frásögn Kláusar Eyjólfssonar,
Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 28–29, 50–51, 68, 84–85.
ÞoRsteinn helgason