Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Side 135
134
Egilsson skrifar um hlutverk tjáningarinnar í reisubók sinni eftir að hann
hefur lýst því að sveitungar hans í Vestmannaeyjum voru seldir á þræla-
markaði í Algeirsborg, þar á meðal sonur hans.
Eija! ég vildi segja yður, og vildi gjarnan styrkja fólkið með munn-
inum. Þó ég tali, þá vægir mér ekki mín pína, en leggi ég þar ekki til,
þá fer hún þó ekki í burt frá mér. Nú, er þó samt drottins.38
Ekki virðist hafa vafist fyrir Kláusi og Ólafi að skrifa um trámatíska reynslu
sína – þjáninguna – andstætt því sem gerðist með ýmsa erfiða reynslu
í seinni heimsstyrjöldinni. Þjáningin var hluti af hugarheimi 17. aldar,
verðskulduð og sjálfsögð. Hver maður var sekur fyrir Guði og þjáning
var hlutskipti mannsins sem enginn gat fríað sig frá: „Þóknist honum að
þjaka / þitt hold örkumslum með / þýðlega því skalt taka,“ orti Hallgrímur
Pétursson.39 Það voru því færri hugmyndalegar og þjóðfélagslegar hindr-
anir á því að tjá minningu hörmunganna á 17. öld en á skeiði framfara og
nútímavæðingar á 20. öld. Þetta kann að vera orðið breytt á síðari árum
þar sem fjöldamorðin í Rúanda, ellefti september, Úteyjarmorðin og fleiri
áföll eru umsvifalaust tilefni til úttekta, skáldsagna og bíómynda.
Hjá Ólafi og Kláusi má ætla að persónuleg þörf hafi að miklu leyti
knúið þá til að skrifa um hina voðalegu atburði. Um Björn á Skarðsá gegn-
ir öðru máli. Hann vann ritverk sitt að beiðni Þorláks Skúlasonar bisk-
ups, að sögn hans til að Íslendingar væru ekki minni en aðrar þjóðir sem
„saman taka tíðindi og tilburði, hver í sínu landi og ættjörð ...“40 Hér er
sagnaritunin flutt af míkrósviði yfir á makrósvið, þörfin er þjóðarinnar,
kirkjunnar og menningarinnar – sameiginlegu minningarinnar. Þorlákur
biskup átti þó einnig beinar minningar af ráninu þar sem hann var stadd-
ur á Bessastöðum þegar ránsmenn bjuggust til að ráðast á staðinn. Hann
tók einnig á móti Ólafi Egilssyni í Kaupmannahöfn þegar hann kom úr
herleiðingu sinni í Algeirsborg. Vafalaust hefur Þorlákur kynnst ráninu á
fleiri vegu með áþreifanlegum hætti.
38 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 157.
39 [Hallgrímur Pétursson], Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, Reykjavík: Snæbjörn
Jónsson, 1950, bls. 104.
40 Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. 215.
ÞoRsteinn helgason