Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 138
137
skeið og að því fylgi ásakanir í garð danskra stjórnvalda. Tengingin liggur
engan veginn í augum uppi. Varnarleysi Íslendinga er til að mynda tvíbent
röksemd vegna þess að í því má sjá bæði kosti og galla. Hlutverk dana er
ekki borðleggjandi.
Sögukennslubækur eru oft taldar til verkfæra stjórnvalda til að búa til
þjóðminningu þó að hér sé því haldið fram að þær séu allajafna staddar
miðja vegu milli sameiginlegra minninga og sagnfræði (þegar þetta tvennt
á ekki samleið). Með tilkomu sögukennslubóka á Íslandi í lok 19. aldar
fékk Tyrkjaránið sinn stað og hefur haldið honum síðan. Rökin fyrir því að
höfundar fjalla um ránið má oftar rekja til minninga en sögu, raunar svo
mjög að þegar sagnfræðin hefur yfirhöndina í kennslubók má Tyrkjaránið
frekar missa sig því það er ekki nauðsynlegt við sagnfræðilegar athuganir,
t.d. á bændasamfélaginu, fyrirkomulagi verslunar á fyrri öldum eða teng-
ingu náttúru, mannlífs og stjórnarfars.
Þegar kennslubókarhöfundur hefur ekki séð tilefni til að stinga ráninu
inn í bók sína í nafni sagnfræðinnar, bankar þjóðminningin á öxlina og
minnir á atburðinn: „Nú erum við komin fram á 17. öld, og einn frægasti
atburður hennar er Tyrkjaránið árið 1627,“ skrifar Gunnar Karlsson í kafla
um einokunarverslunina í kennslubók sinni fyrir grunnskóla, Sjálfstæði
Íslendinga, sem kom út 1985.49 Hér er augljóslega vísað til hinnar sameig-
inlegu minningar, þjóðminningarinnar, sem krefst þess að þessa atburðar
sé getið þó að sagnfræðingurinn vilji kannski helst láta hann hverfa þar
sem hann fjallar um óskylda hluti.
Þó að Tyrkjaránið eigi svo helgaðan stað í þjóðminningunni að kennslu-
bókarhöfundar verða að eyða orðum að honum er ekki gefið hvaða sam-
hengi á að gefa honum í skólabókunum eins og t.d. hefur gilt hingað til um
einokunarverslunina eða siðaskiptin.
Sumir fræðimenn hafa reynt að greina endurtekin stef í sameiginlegri
minningu þjóða, menningarheima eða annarra samfélaga, þ.e. samhengi
og boðskap sem ólíkar frásagnir sameinast um, eitt undirliggjandi þjóð-
minningarstef sem flestar aðrar frásagnir þurfi að vera í samhljómi við.
Heimspekingurinn Jean-François Lyotard kenndi slík stef við „frumsögu“
(fr. métarécit) en aðrir nefna þetta goðsögur. Mannfræðingurinn og minn-
ingafræðingurinn James V. Wertsch talar um„djúpa sameiginlega minn-
ingu“ (e. deep collective memory).50 Viðfangsefni Wertsch er minning Rússa
49 Gunnar Karlsson, Sjálfstæði Íslendinga. Íslensk stjórnmálasaga þjóðveldisaldar, skrifuð
handa börnum 1, Reykjavík: Námsgagnastofnun, 1985, bls. 46–47.
50 James V. Wertsch, „Collective Memory and Narrative Templates“, Social Research
tYRKjaRániÐ sem minning