Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 141
140
en hin „grimmlynda“ og „herskáa“ þjóð sem Jónas frá Hriflu kallaði svo í
Íslandssögu sinni. dregið hefur verið fram – sem ekki eru fréttir fyrir þá
sem rannsaka sjórán sautjándu aldar – að Evrópumenn voru framarlega í
hernaði Norður-Afríkumanna sem trúskiptingar. Færð hafa verið rök fyrir
því að Tyrkjaránið hafi átt frumkvöðul og forsprakka og að hann hafi verið
Hollendingur að ætt og uppruna, Jan Janszoon frá Harlem sem tók sér
nafnið Múrat Reis þegar hann snerist á sveif með múslímum. Þetta er smám
saman að verða viðurkenndur þáttur í minningu Tyrkjaránsins. Múrat Reis
var t.d. gerður að veigamikilli persónu í íslenskri heimildaskáldsögu um
Tyrkjaránið.55 Ferill hans var útlistaður í heimildamynd fyrir sjónvarp sem
sýnd var í íslensku sjónvarpi og á nokkrum erlendum stöðvum.56 Erlend
gerð sjónvarpsmyndarinnar var sýnd á sjónvarpsstöð í Hollandi og nokkru
seinna kom út barnabók í Hollandi um „Jan Janse, piratenkapitein“ þar
sem herferðin til Íslands (Grindavíkur) fær sitt rými.57 Á Írlandi kom um
líkt leyti út fyrsta ritið um „Tyrkjaránið“ í Baltimore 1631, skrifað af blaða-
manni og í liprum stíl en vel skjalfært, og þar var notuð sama sjónvarps-
mynd til að fá betri mynd af Múrat Reis, auk margra annarra heimilda.58
Loks má geta þess að forysta hans fyrir Íslandsleiðangrinum er orðin svo
staðfest að hennar er getið í dagblaði þar sem fjallað er um aðildarumsókn
Tyrklands að ESB, sem sé sem sögulegrar tengingar við Ísland. Þar segir
m.a. undir fyrirsögninni „Ekkert Tyrkjarán?“:
Foringinn, Murat Reis, var upprunalega Hollendingur, Jan Janszoon,
sem snerist til íslams og giftist Berbakonu. Börn þeirra settust að
í New york og meðal afkomenda þeirra voru Jackie Kennedy og
Humphrey Bogart.59
Hugsanlegt er að vitundin um þátttöku einstakra Evrópumanna í hern-
aði korsara á norðurslóðum verði smám saman hluti af sameiginlegri
minningu Íslendinga um Tyrkjaránið. Hún getur þróast í einhliða sakfell-
ingu og einföldun sem fræðimaðurinn hefur ímugust á. Fræðimennska
55 Úlfar Þormóðsson, Hrapandi jörð. Skáldsaga um Tyrkjaránið, Reykjavík: Almenna
bókafélagið, 2003.
56 Þorsteinn Helgason, Atlantic Jihad.
57 Mariska Hammerstein (texti) og Anco Nanninga (myndir), Jan Janse, piraten-
kapitein in Marokko, Amsterdam: Uitgeverij Pennenstreek, 2006.
58 des Ekin, The stolen village. Baltimore and the Barbary Pirates, dublin: o’Brien
Press, 2006.
59 Kristján Jónsson, „Ekkert Tyrkjarán?“, Morgunblaðið, 11. apríl 2009, bls. 8.
ÞoRsteinn helgason