Skírnir - 01.01.1975, Blaðsíða 13
SKIRNIR
ÆTTI SÁLARFRÆÐI AÐ VERA TIL
11
dulvitundinni en ekki í vitundinni. Og þessi dulvitundartilgáta styðst
ekki við nein rök að því er bezt verður séð: það virðist alls engin
ástæða til að gera ráð fyrir „ómeðvituðum óþægindum“ sem valdi
önuglyndinu í dæmi Símonar. Dæmið gefur ekki tilefni til annars en
að við getum þess til að meinsemdin geri manninum lífið leitt jafn-
vel þótt hann viti ekki af henni. Það er ekki annað en marklaus
orðaleikur að kalla meinsemd eins og skemmd í tönn „dulvitaða
tannpínu“ þegar svo vill til að við vitum ekki af henni.10
Og snúum okkur þá að dulvitundarkenningunni um skynjunina,
eða öllu heldur að einu afbrigði hennar sem kynnast má af Sálar-
frœði Símonar Jóh. Ágústssonar. Þar segir:
Hið sálræna starf, sem liggur til grundvallar skynjuninni, er að miklu leyti
dulvitaff. Skynjunin er, svo undarlegt sem það virðist í fljótu bragði, að öðr-
um þræði hugsmíð. Við verðum reyndar fyrir ytri áhrifum, en hugurinn flokk-
ar og aðgreinir þessi áhrif og leggur í þau merkingu. Það, sem kallast skynj-
un, eru skynhrifin að viðbættri þeirri merkingu, sem við leggjum í þau. Skynj-
unin er þá ekki eingöngu fólgin í því að nema áreitin, heldur jafnframt í því
að leggja í þau merkingu. Maður, sem ég sé, eða landslag, er í raun og veru
ekkert nema ljósflekkir. En nú tekur hugarstarfið við: Eg greini þessa ljós-
flekki, manninn, frá öðrum áreitum umhverfisins. Eg veit undireins, hvað þess-
ir ljósflekkir merkja: Þetta er maður. Ég sé, að þetta er ákveðinn maður, ég
þekki hann: Þetta er Páll Jónsson. 011 sú þekking, sem ég hef um manninn
yfirleitt og þennan sérstaka mann, veitir merkingu þessum ljósflekkjum, sem
til augans berast. Hugtakið maður „fyllir" og túlkar skynmyndina. Þannig er
allur hugurinn að verki í skynjunarstarfinu. Og allt þetta gerist með leiftur-
hraða, á broti úr sekúndu. Þetta hugarstarf er manninum svo tamt, að það
þarf mjög nákvæma athugun til að liða sundur skynjunina og gera sér grein
fyrir henni í aðalatriðum. Þetta hugarstarf kemst ekki til vitundar nema ein-
stöku sinnum. Skynjunin, sem enginn gefur sér tíma til að staldra við í dag-
legu lífi, er sannkallað furðuverk dulvitundarinnar.11
Hér er tekið einfalt dæmi skynjunar. Símon sér kunningja sinn Pál
Jónsson. Og hann freistar þess að gera sálfræðilega grein fyrir
þessu hversdagslega atviki. Aðferð hans er frumstæð eftirlíking
þeirrar aðferðar sundurliðunar og samantektar sem Galileo Galilei
gerði fræga með því að beita henni við rannsóknir sínar á falli
hluta: Símon sundurgreinir atvikið og freistar síðan skýringar á
athurðunum, - að vísu ekki með reikningsj öfnum að hætti Galileos,
heldur með því að bregða fyrir sig sálfræðilegu hugtaki, dulvitund-
arhugtakinu.