Skírnir - 01.01.1975, Blaðsíða 155
SKÍRNIR
TILRAUN TIL DRAUMRAÐNINGAR
153
Jón Frímus kastar frá sér eign og embætti, og á því allt, yfirvinnur
fjandmenn sína með því að fyrirgefa þeim, lifir lífinu áhyggjulaus
í trausti á náttúruna og uppsker af sjálfu sér umhyggju og elsku-
semi náunga síns:
Frk. Hnallþóra: Presturinn fær sér eitthvað uppúr vasa sínum þar sem hann
er kominn. Frúrnar senda honum stundum rúgbrauðskökk; það er nú ástin
þeirra. Bílstjórarnir skilja líka stundum eitthvað eftir í skúrnum. Þeir sem
róa af staðareigninni rétta honum band og band í landhlut og það herðir
hann sjálfur á gömlum fiskgörðum útí hrauni; stundum meira að segja flyðru.
Sölin sín þurkar hann á klettunum. Og vatn er í lækjunum. Það má segja að
presturinn lifi á landsins gæðum. (137)
Þessir lífshættir bera sína réttlætingu í sjálfum sér: „alt rís upp nýtt
eða betra en nýtt í höndunum á séra jóni“. (15) Aftur á móti á sá
sem svo lifir ekki lengur margt sameiginlegt með prestastétt né finn-
ur hann púðrið í helgihaldi kirkjunnar, skeytir lítt um arftekið góss
of-siðunar og of-menningar, falskra gilda. Hús og helgigripir eru
tómar mannasetningar, skaparinn er náttúran sjálf:
Séra Jón: (...) Það hafa staðið ótaldar þúsundir kirkna á íslandi í gegn-
um tíðina, allar fullar með listaverk. Hvar eru þau listaverk nú? Bú-a-gemma,
segja börnin.
Umbi: Krakkar semsé búnir að skemma altsaman!
Séra Jón: Reyndar eru nú fleiri liðtækir. Það er nú til dæmis Veðrið; og
það er Þýngdarlögmálið; og síðast en ekki síst Tíminn. Þetta eru seigir kallar.
Nótt sem nýtan dag, einlægt að puða. Enn eru þeir að. Einginn hefur við
þeim. (95)
Börnin og höfuðskepnurnar - óspilltar manneskjur og uppruna-
legt líf, skapandi öfl lífsins. Að brjóta niður það sem sýngmenn
byggja upp: það er að endurskapa heiminn. Hin nýja köllun séra
Jóns er sköpun heims, samruni lífs og náttúru í eindrægni, samfé-
lagsleg nýsköpun hins upprunalega.
Að séra Jón sé kristsígildi, að tilraun Sýngmanns til að setjast í
sæti drottins almáttugs byggist á sáttmála hans við Úu og heppnist
ekki: það skýrist ekki nema með skilningi á Úu sjálfri og hlutverki
hennar í skáldsögunni. Eftir freistinguna birtist hún í óteljandi
myndum, allstaðar og hvergi, hún er um kyrrt hjá séra Jóni undir
Jökli, en í leynum, og hún er líka hjá Sýngmanni, dóttir hans og
ferföld frú og ekkja hans, og á ótal öðrum stöðum. Hún er í sögunni
fulltrúi fyrir almættið og vanmáttinn: