Skírnir - 01.01.1975, Blaðsíða 201
SKÍRNIR FJÖLNISMENN OG ÞJÓÐARSAGAN 199
Um útbreiSslu og móttökur Fjölnis eru allar upplýsingar vel
þegnar, og má mikið vera ef ritið Fjölnir, árgangarnir níu, og fé-
lagshreyfing sú sem umhverfis það myndaðist, kallar ekki á sér-
staka athugun og verk. Liggur við að segja megi að fáir og stuttir
þættir um þessi efni geri ekki öllu meira en æra upp hungur.
Fyrra skeið Fjölnis bar Tómas hallann af útgáfunni og ef til vill
ríflega það. En síðara skeiðið var naumast öðrum til að dreifa sem
kostnaðarmanni en Brynjólfi. Þegar bezt lét virðist af upplýsingum
þeim sem hér er að finna, að látið hafi nærri að fengizt hafi inn
fyrir framlögðum kostnaði. En ómarkviss og óstöðug afgreiðsla
unnin á hlaupum hefur sjálfsagt misst af mörgum matarholum.
Eftir að íslenzka þjóðin hafði fyrst tekið Fjölnismenn í sátt og
síðan hafið þá á stall með öðrum hálfguðum sínum, eru þessir boð-
berar síðrómantískra lífsskoðana orðaðir við margs konar umbóta-
hreyfingar og viðleitni til félagslegra átaka. Ef til vill er ekki ör-
grannt um að kunnugir kími, þegar þeir eru á það minntir, að einn-
ig í bindindismálum urðu þeir brautryðjendur. Fjarri sé mér að
henda gaman að baráttu gegn Bakkusardýrkun, þó að oft hafi mér
sýnzt í slíkri viðureign vera af miklu offorsi ráðizt á sýnilegar af-
leiðingar meinsins, en undirrótin sjálf látin afskiptalaus.
Reyndar var það hófsemdarfélag sem Fjölnismenn stofnuðu
haustið 1843 að frumkvæði sr. Péturs Péturssonar. En mér er ekki
grunlaust um að glaðni yfir mörgum hedonista, þegar hann á hls.
92 rekst á ummæli manns, sem að sögn kallaði ekki allt ömmu sína
í skiptum við Bakkus:
Svo var Brynjólfur mikill gleðima'ður og hraustur, að hann gat vakað við
gleðskap fram undir morgna, og sá ekki á, og svo reglubundinn og trúr, að
kominn var hann jafnan manna fyrstur á skrifstofu sína, allt um það.
Það dregur að vísu ljómann af þessari lýsingu, þegar höfundur
hnýtir svofelldum orðum sjálfs sín við:
í samtímaheimildum er ekki um þetta talað, en í bréfi ... víkur Brynjólfur
einmitt að vínneyzlu sinni að undanförnu og segir ... : „Jeg hefi leingi ætlað
mjer að stofna hófsemdarfjelag þegar jeg kjæmi heim, enn nú var það margt
sem knúði mig til að gjörast undirrót þess, að þetta fjelag irði stofnað undir
eins, enn það seígi jeg þjer satt, að þarí var so að seígja ekkjert tillit til sjálfs
mín, því jeg gjet vel verið hófsmaður án fjelags, og hef líka verið það nokk-
urnveíginn á seinni tíðum“. (Bls. 92-93).