Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Blaðsíða 24
Páll Skúlason
sé andstæða skynseminnar og því beri að vísa henni til síns heima með forn-
eskjulegum hindurvitnum.
Nú eru ýmsar leiðir fram hjá þessum vanda sem virðist - að minnsta kosti við
fyrstu sýn - geta réttlætt stöðu guðfræðinnar í heimi fræðanna. Ég mun nefna
tvær. Þá fyrstu kalla ég hentistefnuleiðina. Menn segja þá sem svo að guðfræði
þjóni mikilvægum hagsmunum í þjóðfélaginu. í þjóðfélaginu séu voldug öfl sem
vilja að guðfræðideildin lifi vegna þess að hún þjónar trúarsannfæringu þeirra og
á jafnframt mikilvægan þátt í því að viðhalda gömlum og góðum siðum. Og þeir
bæta því við að hún skaði ekki ástundun annarra fræða, enda vandlega geymd á
efstu hæðinni í Aðalbyggingu Háskólans.
Ég er ekki sáttur við þessi rök. Ég get að vísu fallist á að fræðigrein geti átt
rétt á sér vegna þess að hún viðhaldi dýrmætum, sögulegum hefðum - góðum og
gömlum siðum. Sú réttlæting er samt háð því skilyrði að um eiginleg fræði sé að
ræða, það er fræði þar sem beitt er gagnrýninni hugsun til að skapa nýja þekk-
ingu og nýjan skilning á viðfangsefninu. Ef guðfræði er ekki slík fræði á hún
ekki heima í háskóla okkar, hversu nytsöm sem hún kann að vera að öðru leyti.
Önnur leið til að víkja sér undan vandanum felst í því að líta á guðfræðina
sem rannsókn á boðskap Krists og hvemig hann hefur verið meðtekinn - án þess
að afstaða sé tekin til þess hvort hann hafi sagt satt, sem sagt óháð því hvort við
trúum því eða ekki að hann sé frelsari mannkyns. Þessa leið kalla ég hlutleysis-
leiðina. Guðfræðin væri ekki annað en fræðileg greining á hinum kristnu trúar-
brögðum - og öllum sögulegum og textafræðilegum heimildum þeim tengdum -
en öldungis hlutlaus um það hvort þar sé að finna sannleika eða ekki. Hún væri í
reynd einskonar trúarbragðafræði og því ástæðulaust að velta vöngum yfir öðru
en því hversu vönduð vinnubröð manna væru, rétt eins og í öðrum fræðum.
Ég get ekki heldur fallist á þessa leið. Kristin guðfræði á ekki, að mínum
dómi, að teljast hluti almennrar trúarbragðafræði, þótt slík fræði eigi vitaskuld
rétt á sér. Ef við rannsökum boðskap Krists, þá eigum við að taka alvarlega þann
möguleika að hann sé sendur í heiminn í því skyni að leysa mannfólkið úr eigin
fjötrum. Kenningin hvílir á þessu frumatriði að Kristur sé frelsari mannkyns.
Fram hjá þessu má ekki horfa, ef menn vilja rannsaka kenninguna af fullum heil-
indum, heldur ber að líta á það sem raunverulegan möguleika að Kristur sé sá
sem hann segist vera.
En þá vaknar óhjákvæmilega sú spuming hvort sá möguleiki sé ekki ótækur í
vísindalega rökræðu, ósamrýmanlegur viðmiðunum eða mælikvörðum mann-
legrar skynsemi. Ef svo er, þá sé guðfræðin ekki og geti ekki verið eiginleg fræði
og átt tilkall til þess að vera viðurkennd sem slík í heimi fræðanna. Þetta er vand-
inn: Getum við útilokað guðfræðina fyrirfram frá heimi fræðanna vegna þess að
hún hvíli á óvísindalegri forsendu - eða getum við í nafni vísinda viðurkennt