Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Blaðsíða 187
Hirðir og hjörð
Jólaguðspjallið og samstofna guðspjöllin
Þegar við komum yfir í Nýja testamentið og byrjum á jólaguðspjallinu hjá Lúk-
asi verða fjárhirðar enn á vegi okkar þar sem þeir gæta hjarðar sinnar úti í haga.
Þar fá þeir fyrstir manna tíðindin um að frelsari sé fæddur í borg Davíðs, þess
konungs sem hafði sjálfur verið fjárhirðir á unga aldri.32 Hér er ástæða til að
vekja athygli á hinni félagslegu stöðu fjárhirðanna. Þeir voru ekki hátt skrifaðir.
Þvert á móti er óhætt að segja að þeir voru almennt fyrirlitnir. Ekki er því óeðli-
legt að mönnum komi í hug andstæða á milli opinberunar Guðs í musterinu og
opinberunar meðal þeirra sem voru fyrirlitnir.
Af samstofna guðspjöllunum að dæma hefur Jesús heimfært hirðislíkinguna
til sjálfs sín. Hann er kominn til týndra sauða af húsi ísraels (Mt 15:24). Þegar
hann talar um væntanlegan dauða sinn (Mk 14:27) vitnar hann til orða Sakaría
spámanns: „Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast“ (Sak 13:7). í dæmisögu
sinni um hinn týnda sauð (Lk 15) lyftir Jesús hlutverki hirðisins í æðra veldi, og
lfkir kærleika Guðs við umhyggju hirðisins.33
Góði hirðirinn
ítarlegustu og áhrifamestu notkun Nýja testamentisins á hirðisstefinu er að finna í
10. kafla Jóhannesarguðspjalls: Jesús sem góði hirðirinn. Þessi frásögn skapar
óneitanlega hugrenningatengsl við 34. kafla Esekíels.34 Sá kafli hefur verið mjög
góður grunnur að byggja á fyrir höfund Jóhannesarguðspjalls því að honum lýkur
á orðunum: „Og þeir skulu viðurkenna að ég Drottinn, Guð þeirra er með þeim,
og þeir ísraelsmenn, eru mín þjóð, - segir Drottinn Guð. En þér eruð mínir sauðir.
Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, - segir Drottinn“ (Esk 34:30-31).
10. kafli Jóhannesarguðspjalls stendur jafnframt í þýðingarmiklum tengslum
við lok 9. kaflans. Það samtal sem Jesús átti við Faríseana í Jh 9:40 o.áfr. verður
til þess að Jesús lýsir því yfir hver hann er. Boðskapnum er komið til skila með
líkingunni af góða hirðinum og sauðunum, Jh 10:1-18, sem leiðir til nýs ágrein-
ings meðal Gyðinganna, Jh 10:19-21.35 Með spumingunni: „Mundi illur andi
geta opnað augu blindra?" er augljóslega verið að tengja við frásagnar 9. kaflans
af því er Jesús læknaði blindfædda manninn. Þýðingarmikið atriði í þessum
tveimur köflum eru viðbrögð manna við Jesú. Þeir skiptast í tvo hópa: Þeir sem
32 Þetta mun vera eini staðurinn þar sem fjárhirðar eru nefndir í Nýja testamentinu án þess að um
mynd- eða líkingamál sé að ræða.
33 Jakob Jónsson, Þættir um Nýja testamentið. Rvk. 1981, s. 101.
34 Agæta umfjöllun um bakgrunn Jh 10 í Gamla testamentinu er að finna í hinu volduga skýringa-
riti R.E. Brown, The Gospel accoríng to John I-XII. The Anchor Bible. Geoffrey Chapman
Publishers, London 1975, s. 396-398.
35 R. Kieffer, Johannesevangeliet 1-10. Kommentar till Nya Testamentet 4A, EFS-förlaget,
Uppsala, 1987, s. 236.
185