Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Blaðsíða 13
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 2011 9
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
skólahjúkrunarfræðingar sögðu það vera í 58% þeirra.
Hvar fara tóbaksvarnir fram?
Algengast var að tóbaksvarnir færu fram innan skólans. Í um
helmingi skólanna (48%) fóru tóbaksvarnir fram á tveimur
stöðum, oftast í lífsleiknitímum og í tímum umsjónarkennara.
Næst algengast var að tóbaksvarnir færu fram á einum stað
(39%), oftast í tímum umsjónarkennara (20%) og því næst í
lífsleiknitímum (13%).
Tóbaksvarnir í námskrám
Tóbaksvarnir voru í námskrám 53% skóla þátttakenda, en
enginn svaraði því hver ætti að sinna tóbaksvörnum samkvæmt
námskránni. Þegar einungis var horft til þeirra sem svöruðu já
eða nei, voru tóbaksvarnir í námskrá 74% skólanna. Marktækur
munur var á svörum skólastjóra og skólahjúkrunarfræðinga um
það hvort tóbaksvarnir væru í námskrám skólanna (p<0,001).
Skólastjórar sögðu tóbaksvarnir vera í námskrám skólanna
í 65% tilfella, en 37% skólahjúkrunarfræðinganna. Jafnframt
vissu 58% skjólahjúkrunarfræðinganna ekki hvort tóbaksvarnir
væru í námskránum, á móti 4% skólastjóranna.
Reglur um tóbaksnotkun í grunnskólum
Samkvæmt svörum þátttakenda voru 88% grunnskólanna með
reglur um tóbaksnotkun sem viðkomu skólunum, skólalóðunum
og öllum viðburðum á vegum skólanna, sem bæði nemendur
og kennarar þekktu til. Reglurnar giltu um allt tóbak í 88%
tilfella, en eingöngu um reykingar í 12% tilfella. Munur var
á svörum skólastjóra og skólahjúkrunarfræðinga um hvort
reglur væru um tóbaksnotkun í grunnskólunum (p<0,001), þar
sem 14% skólahjúkrunarfræðinganna vissu ekki til þess en
allir skólastjórarnir svöruðu því hvort reglur væru til eða ekki.
Þátttakendur svöruðu í 49% tilvika að skriflegar leiðbeiningar
væru í þeirra skóla um hvernig taka ætti á tóbaksnotkun
nemenda. Skriflegar leiðbeiningar voru ekki í skólum 28%
þátttakenda. Marktækur munur var á svörum skólastjóra
og skólahjúkrunarfræðinga um hvort skriflegar leiðbeiningar
væru í skólunum um hvernig taka ætti á tóbaksnotkun
(p<0,001). Skólastjórar sögðu að skriflegar leiðbeiningar væru
í 56% tilfella, en skólahjúkrunarfræðingar í 35% tilfella, en
rúmlega helmingur skólahjúkrunarfræðinga (52%) vissi ekki
hvort skriflegar leiðbeiningar væru til, á meðan nánast allir
skólastjórarnir vissu það (99%).
UMRÆÐA
Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna
tóbaksvarnir í grunnskólum á Íslandi. Helstu niðurstöður sýndu
að tóbaksvörnum var sinnt í efri bekkjum grunnskólanna
í nánast öllum grunnskólum á Íslandi, en einungis fjórir
skólar sinntu tóbaksvörnum í öllum bekkjum. Langt innan við
helmingur nemenda í 1.6. bekk fékk tóbaksvarnafræðslu.
Þetta samræmist Lynch og Bonnie (1994) sem benda á
að markhópur forvarnaverkefna séu ungmenni í upphafi
unglingsáranna og því er þessum forvörnum lítið haldið á lofti
fyrr en á unglingastigi grunnskólanna. Hins vegar var athyglis
vert að tóbaksvarnir voru algengastar í 7. og 8. bekk. Innan
unglingastigs var tóbaksvörnum minnst sinnt í 10. bekk og
þarf því að gera betur þar. Ef horft er til rannsóknar Álfgeirs L.
Kristjánssonar og félaga (2008) ættu tóbaksvarnir að aukast
jafnt og þétt upp grunnskólann og vera hvað mestar í 10.
bekk til að stemma stigu við þeirri aukningu sem verður á
tóbaksnotkun milli grunn og framhaldsskóla. Jafnframt þarf að
huga betur að yngri nemendunum. Yngri nemendur eru líklegri
til að tileinka sér heilsusamlega lifnaðarhætti og velja frekar að
hafna ávana og fíkniefnum eins og tóbaki ef þeir fá virka og
góða heilbrigðisfræðslu í gegnum alla skólagönguna (Morton,
2008). Yngri nemendur eru líka móttækilegri og tileinka sér
frekar það sem kennarar og skólahjúkrunarfræðingar bera á
borð fyrir þá (Bassi o.fl., 2008). Því er mikilvægt að tóbaksvarnir
séu í öllum bekkjum grunnskóla en ekki einungis í efri bekkjum
eins og raunin er í flestum grunnskólum á Íslandi. Tóbaksvarnir
þurfa að byrja fyrr í grunnskólum landsins og halda áfram
í gegnum alla skólagönguna. Hins vegar eru tóbaksvarnir
einungis eyrnamerktar 7., 9. og 10. bekk í aðalnámskrá
grunnskólanna undir lífsleikni (Menntamálaráðuneytið, 2007)
og því kemur það ekki á óvart að yngri bekkirnir verði útundan
þegar kemur að tóbaksvörnum. Þrátt fyrir að aðalnámskrá
segi til um að tóbaksvarnir skuli vera í 9. og 10. bekk, þá er
mun minna um þær í þeim bekkjum heldur en í 7. og 8. bekk.
Verkefnið ,,Reyklaus bekkur“ sem er einungis fyrir 7. og 8. bekk
grunnskólanna virðist því skila þeim árangri að tóbaksvarnir
eru mest í þessum bekkjum. Niðurstöður rannsóknarinnar
sýna jafnframt að verkefnið ,,Reyklaus bekkur“ var í meirihluta
skólanna, sem skýrir mögulega hví tóbaksvarnir voru mestar í
þeim bekkjum sem tóku þátt í því verkefni.
Skólahjúkrunarfræðingar og umsjónarkennarar báru hitann og
þungann af tóbaksvörnum í skólum þátttakenda. Samkvæmt
rannsókn Bassi og félaga (2008) eru þeir aðilar best til
þess fallnir að sinna tóbaksvörnum sem nemendur þekkja
vel og treysta, en það á oftast við um umsjónarkennara
og skólahjúkrunarfræðinga nemendanna. Samfella
skólahjúkrunarfræðinga í starfi er mikilvæg svo nemendur myndi
traust og trúnaðarsamband við skólahjúkrunarfræðinginn. Hátt
hlutfall íslenskra skólahjúkrunarfræðinga var starfandi í fleiri en
einum skóla og því ljóst að viðvera þeirra í skólunum er einungis
brot af þeim tíma sem nemendur og umsjónarkennarar eru í
skólunum. Að því leyti gæti umsjónarkennari verið betur til þess
fallinn að sinna tóbaksvörnum og fylgja þeim eftir.
Marítafræðslan og aðrir utanaðkomandi aðilar sinntu
tóbaksvörnum í 10% skóla þátttakenda. Því er ljóst að skólarnir
lögðu álíka mikla áherslu á fræðslu utanaðkomandi aðila og
fræðslu meðal nemendanna sjálfra, þ.e. jafningjafræðslu.
Samkvæmt rannsókn Campbell og félaga (2008) er
jafningjafræðsla mikilvægur hlekkur í tóbaksvörnum og skilar
hvað bestum árangri í að koma í veg fyrir að nemendur
grunnskólans fari að fikta við tóbaksnotkun. Því mætti álykta að
þörf væri á að efla jafningjafræðslu í íslenskum grunnskólum.
Skólahjúkrunarfræðingar taka á móti nemendum í
heilsufarsskoðunum og einstaklingsviðtölum á skólatíma.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar spyrja þeir ekki
út í tóbaksnotkun í ríflega helmingi tilvika. Þetta samræmist
niðurstöðum rannsóknar Margrétar H. Svavarsdóttur og