Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Page 28

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Page 28
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 201124 og heilsutengda færni, heldur einnig að koma í stað þjónustu sem að öllu jöfnu er veitt á sjúkrahúsum (Thomé o.fl., 2003). Heimaþjónusta nær yfir fjölbreytt svið, allt frá heilsueflandi heimsóknum að líknarmeðferð. Í þessari grein er samvinna í heimaþjónustu skoðuð frá sjónarhorni heimahjúkrunar. Fræðilega mótast umfjöllunin af hugmyndum gerendanetskenningarinnar (Actor Network Theory) (Law og Hassard, 1999) og greiningu Opie (1997, 2000) á forsendum árangursríkrar teymisvinnu. Þeir sem beita gerendanetskenningunni líta svo á að fyrirbæri, atburðir og einstaklingar mótist af þeim tengslum sem þeir búa við (Law, 1992, 1999). Hér er átt við tengsl bæði milli efnislegra fyrirbæra og hugmynda og hugtaka sem stuðst er við í samræðum (e. material­semiotic). Athyglin beinist að því hvernig tengsl skapa og móta (e. enacting) gerendur, en hlutir og fyrirbæri eru álitnir gerendur, líkt og mennirnir. Þessir þættir eru samofnir, hafa áhrif hver á annan og eru í stöðugri mótun. Því er mikilvægt að skoða eðli sambanda, áhrif þeirra og forsendur þess að þau þróist. Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi vandaðrar teymisvinnu, sérstaklega í umönnun einstaklinga með langvinn og margþætt heilsufarsvandamál. Opie (1997, 2000) benti á að sú orðræða sem starfsmenn hafa tileinkað sér mótar skilning þeirra á eðli viðfangsefnanna, gildismat og áherslur í starfi. Orðræðan dregur fram ólíka þætti í aðstæðum og erfiðleikum sjúklinga og gefur með því ákveðna mynd af eðli verkefnanna. Sumir starfsmenn leitast við að skilja sjónarhorn og reynslu sjúklinga, tilfinningar þeirra og áherslur. Aðrir einbeita sér að því að greina og meta þarfir og óskir um aðstoð við daglegt líf og enn aðrir greina heilsufarsvandamál. Yfirleitt má finna eitthvert samspil þessara þátta í orðræðu hvers og eins, en Opie beinir athyglinni að því hvernig starfið mótast af orðræðunni. Hún telur mikilvægt að fólk leggi sig fram um að átta sig á því hvaða skilning samstarfsmenn þess hafa á starfinu og hvetur til þess að þróaður sé einhvers konar samhljómur um það hvernig ákjósanlegast sé að hugsa um sjúklinga og þá aðstoð sem þeim er veitt. Hér vísar hún til þess að hugsa á gagnrýninn (e. reflexive) hátt og að slíkt krefjist tíma og einbeitingar sem mikilvægt sé að gera ráð fyrir. Þó að rannsóknir sem fjalla um samstarf í heilbrigðisþjónustunni beinist í auknum mæli að teymisvinnu hafa flestar þeirra fjallað um samstarf starfsmanna við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Það sjónarmið er útbreitt að auka þurfi þátttöku þeirra sem njóta þjónustu í ákvarðanatöku og umönnun. Ýmsir hafa sett fram lýsingar á starfsaðferðum sem stuðla að því að raddir allra fái notið sín og má þar nefna hugmyndir Helgu Jónsdóttur og samstarfskvenna hennar um samvinnu (e. partnership) sjúklinga og aðstandenda þeirra og heilbrigðisstarfsmanna (Ingadóttir og Jonsdóttir, 2010). Heilsugæsluhjúkrunarfræðingar telja að gott samstarf við sjúklinga og aðstandendur þeirra sé forsenda árangurs í starfi (Stajuhar o.fl., 2010) og að með því að beita opnum samskiptaaðferðum og leggja sig fram um að hlusta á sjónarmið aðstandenda myndist traust (Lévessue o.fl., 2010; Linden, 2010). Í Bretlandi og Norður­Ameríku er rík hefð fyrir því að líta svo á að hlutverk aðstandenda í umönnun sé umfangsmikið og að störf hjúkrunarfræðinga afmarkist við fræðslu og stuðning (Ward­Griffin og McKeever, 2000). Á Norðurlöndum hafa myndast aðrar hefðir þar sem þátttaka hins opinbera er meiri (Wrede o.fl., 2008). Sambandið milli þeirra sem njóta aðstoðar og aðstandenda þeirra er oft flókið og lítil gagnkvæmni getur leitt til þess að aðstandendur finni fyrir vanlíðan og þunglyndi og telji sig ekki geta haldið áfram að sinna umönnun (Shim o.fl., 2011). Eldri borgarar eiga oft erfitt með að sætta sig við að þiggja opinbera aðstoð, sérstaklega í upphafi umönnunar (Gantret o.fl., 2008) og í sumum tilvikum finna þeir og aðstandendur þeirra til vanmáttar í samskiptum við hjúkrunarfræðinga og telja að ekki sé tekið mið af þekkingu þeirra og óskum (Lindahl o.fl., 2010; Oudshoorn o.fl., 2007). Greinilegt er að samstarf er mikilvægur þáttur heimaþjónustu og leitað verður svara við rannsóknarspurningunni: Hvað einkennir samstarf í heimahjúkrun og hvernig verður það styrkt? AÐFERÐ Rannsóknaraðferðin var etnógrafísk (Hammersley og Atkinson, 1995; Latimer, 2003a, 2003b; Purkis, 2003). Hún felst í því að rannsakandi fylgist með daglegu lífi, samskiptum og athöfnum þeirra sem rannsóknin beinist að. Etnógrafía passar vel í rannsóknum þar sem leitast er við að lýsa því hvernig einstaklingar og fyrirbæri mótast (e. enacting) í ólíku samhengi, líkt og gert er hér (Pols, 2004). Gagnasöfnun Höfundur sá um alla gagnasöfnun og fór hún fram frá byrjun mars til loka júní og í desember árið 2010. Unnið var með fimm heimahjúkrunarteymum sem starfa í heimaþjónustu á Stór­ Reykjavíkursvæðinu. Hvert teymi samanstóð af teymisstjóra sem er ávallt hjúkrunarfræðingur og 2­5 sjúkraliðum. Höfundur fylgdi hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum við dagleg störf eins og vitjanir, samráðsfundi með félagsþjónustunni og fundi í teyminu. Athuganirnar beindust að hjúkrun einstaklinga 80 ára og eldri og fylgst var með hvernig starfsmennirnir lögðu vinnuna niður fyrir sig og hvernig hún var útfærð. Jafnframt voru tekin viðtöl við fimm teymisstjóra og þá sem nutu þjónustunnar, en að auki fóru fram óformleg viðtöl við fjölmarga aðila. Athyglinni er beint að eðli samvinnu sem reyndist vera mikilvægur þáttur vandaðrar heimaþjónustu. Greining gagna Rannsóknargögn voru vettvangslýsingar og vélrituð einstaklings viðtöl. Við greiningu gagna var tekið mið af hinni fræðilegu nálgun sem var kynnt í inngangi. Gögnin voru ítrekað lesin yfir. Smám saman myndaðist skilningur á því hvernig samvinna mótar starfið. Siðfræðileg álitamál Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir rannsókninni og framkvæmd hennar var tilkynnt til Persónuverndar. Etnógrafískar rannsóknir gera heilmiklar kröfur til þátttakenda. Þeir eru meðal annars beðnir um að ræða málefni sem tengjast atriðum sem við lítum yfirleitt á sem einkamál. Því koma oft fram viðkvæmar

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.