Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Side 29

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Side 29
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 2011 25 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER upplýsingar og lykilatriði að vernda einkalíf þátttakenda. Það var gert með því að reyna að tryggja að þeir finndu ekki fyrir þrýstingi gagnvart því að taka þátt og jafnframt voru allar persónugreinanlegar upplýsingar fjarlægðar jafnóðum. NIÐURSTÖÐUR Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að samvinna, bæði meðal starfsmanna heimaþjónustu við eldri borgara og aðstandendur þeirra og við samstarfsaðila innan heilbrigðis­ og félagsþjónustunnar var lykilatriði í árangursríkri þjónustu. Þessi samvinna byggðist á fjölbreyttri þekkingu og einkenndist af sameiginlegum skilningi á áhersluatriðum. Hér á eftir fylgir lýsing á því hvernig hjúkrunarfræðingarnir nálgast vinnu sína og það sem einkennir samvinnu ólíkra aðila. „Ég er alltaf að reyna að búa til net um hvern og einn“: Skilningur hjúkrunarfræðinga á heimahjúkrun Heimaþjónustu má líkja við viðkvæmt net samvinnu sem starfsmenn reyna að viðhalda og styrkja. Nauðsynlegt er að hugsa fyrir fjölmörgum þáttum sem tengjast daglegu lífi og einstaklingurinn þarfnast aðstoðar við. Í sumum tilvikum er það starfsfólk heimaþjónustunnar sem veitir þessa aðstoð, en í öðrum tilvikum eru það maki, börn eða annað venslafólk. Margir þarfnast einnig sérhæfðrar meðferðar eða eftirlits frá hjúkrunarfræðingum og öðrum starfstéttum eins og læknum, félagsráðgjöfum, sjúkraþjálfurum eða iðjuþjálfum. Hjúkrunarfræðingarnir lýstu því hvernig þeir leituðust við að átta sig á hverjum og einum, á því hverju þeir þarfnast og hver veitir aðstoðina. Mikil áhersla var lögð á að mynda traust, sýna nærgætna og vinalega framkomu, virða einkalíf þeirra sem njóta þjónustunnar og sýna sveigjanleika með því að taka tillit til sér óska eftir því sem mögulegt er. Þetta var stef sem endurómaði í öllum gögnunum og virtist einkenna starfið í öllum teymunum. „Að finna leiðir í sameiningu“: Um mikilvægi samráðs Eins og ofangreind lýsing ber með sér kallar starf í heimahjúkrun á samskipti við fjölmarga aðila. Einn mikilvægasti þátturinn var tvímælalaust vikulegir samráðsfundir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og samráðsfundir með starfsfólki félagsþjónustunnar. Í viðtölum við hjúkrunarfræðingana kom fram að starf þeirra er að stórum hluta unnið í samvinnu við sjúkraliðana. Ein þeirra lýsti því svona: Ég fer alltaf í fyrstu vitjun og met stöðu mála og legg línurnar um þá aðstoð sem viðkomandi þarfnast. Síðan fara þær (sjúkraliðarnir) í vitjanirnar og láta mig vita hvernig gengur. Ég reiði mig mjög mikið á þeirra mat á stöðunni. Ef þær telja nauðsynlegt að fara oftar eða aðstoða við eitthvað annað finnum við út úr því. Þess er vænst að ég framkvæmi endurmat á hverjum sjúklingi á 3-6 mánaða fresti. Því miður gengur það ekki alltaf eftir, ég næ því einfaldlega ekki, en ég reiði mig mjög mikið á þeirra mat á stöðunni. Teymisstjórarnir fara sjálfir í vitjanir ef viðfangsefnin kalla á það og flesta morgna eru þeir á ferðinni í hverfinu sínu. Í mörgum tilvikum fara þeir í vitjanir ef staðan er óljós og ekki hefur tekist að finna viðeigandi lausnir. Með tíð og tíma taka sjúkraliðarnir síðan við verkefnunum. Eftir hádegi sitja teymisstjórarnir hins vegar við símann og leysa mál eða fara á fundi. Teymisstjóri lýsti samstarfi í teyminu sínu á eftirfarandi hátt: Við hittumst náttúrulega alltaf á teymisfundum einu sinni í viku og þá hef ég farið yfir listana og þá heyrir maður náttúrulega af því sem er að gerast. Þær þekkja sitt fólk langbest, þannig að um leið og maður heyrir athugasemdir eins og „Hann Jón er orðinn svo slæmur“ þá reynir maður að kíkja á hann. Þannig finnst mér þetta fúnkera best. Á þeim fundum gafst tækifæri til að fara yfir stöðu mála og ræða erfiðleika. Í slíkum samræðum komu oft lausnir sem einhvern veginn höfðu ekki virst augljósar. Í samtölum samstarfsfólks voru ólík sjónarhorn kynnt og tóm gafst til að ræða þar til lausn fannst. Á næsta fundi var málið oft tekið fyrir aftur og í sumum tilvikum var ákveðið að þróa lausnina enn frekar eða breyta fyrirkomulaginu á ný. Ofangreind atriði komu fram í öllum viðtölunum. Heimahjúkrun er samstarf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, en forsenda þess að slíkt samstarf sé árangursríkt er að tóm gefist til samræðna. Þetta endurspeglast í eftirfarandi tilvitnun í viðtal við teymisstjóra þar sem hann var spurður um fyrirkomulag samvinnu í samstarfshópnum. Rannsakandi: Hver finnst þér vera tilgangurinn með þessum samræðum? Teymisstjóri: Það er eiginlega tvennt. Annars vegar finnst mér mjög mikilvægt að þær fái tækifæri til að segja frá og það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur, því augljóslega eru það þær sem bera hitann og þungann af starfinu þarna úti. Er einhver breyting? Er eitthvað ekki alveg að virka? Við þurfum að heyra frá þeim um það hvernig gengur og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Síðan er hin hliðin sú að við erum að leggja einhverjar línur í starfinu og þessir fundir eru mjög mikilvægir til að ná því fram og þetta er mikilvægur vettvangur til að það gangi eftir. Auk fundanna í heimahjúkrunarteyminu voru haldnir fjölmargir samráðsfundir með félagsþjónustunni og hafa þeir breytt miklu, aukið gagnkvæman skilning á viðfangsefnum starfsmanna og bætt upplýsingaflæðið. Reynt er að samhæfa vitjanir á þann hátt að þær dreifist yfir vikuna og daginn. Með því eykst öryggi og hver vitjun skiptir meira máli. „Við erum alltaf gestir á heimilinu“: Samstarf við eldri borgara og aðstandendur Þeir starfsmenn sem rætt var við lögðu allir áherslu á að þeir væru gestir á þeim heimilum sem var vitjað og töldu afar mikilvægt að virða óskir eldri borgaranna. Aðstandendur veita í mörgum tilvikum mikla aðstoð, en sambandið við þá er breytilegt. Er þjónusta hefst fær teymisstjórinn símanúmer hjá einum eða fleiri aðstandanda, en yfirleitt er ekki haft samband við aðstandendur nema einstaklingurinn sjálfur sé ekki fær um það eða óski eftir því. Þeir eldri borgarar sem rætt var við í rannsókninni lögðu yfirleitt mikla áherslu á sjálfstæði sitt í þessu sambandi og vildu sjálfir hafa samband við börnin sín. Stundum hafa aðstandendur hins vegar samband við hjúkrunarfræðinginn og þá myndast samband sem getur orðið mjög mikilvægt er fram líða stundir.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.