Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Qupperneq 43
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 2011 39
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
að það sé tilgangslaust að leggja sig fram og að viðkomandi
búist við mótlæti í framtíðinni. Annar þátturinn, jákvæðar
væntingar til framtíðar, inniheldur atriði sem tengjast von,
eftirvæntingu og bjartsýni og sá þriðji, viðhorf til framtíðar,
tengist óvissu, neikvæðri framtíðarsýn og að hlutirnir gangi
ekki upp (sjá töflu 3). Fyrsti þátturinn, skortur á áhugahvöt,
inniheldur sex af sjö fullyrðingum sem einnig komu fram hjá
Beck í upphaflegri þáttagreiningu kvarðans. Þriðji þátturinn
sem í íslenskri þýðingu nefnist viðhorf til framtíðar inniheldur
sjö fullyrðingar, þar af eru fimm þær sömu og hjá Beck. Á þátt
tvö, jákvæðar væntingar til framtíðar, hlóðust sex fullyrðingar
en einungis þrjár þeirra eru þær sömu og hjá Beck. Af þessu
má sjá að fyrsti og þriðji þátturinn í íslenskri þáttagreiningu
kvarðans líkjast mjög niðurstöðum Beck og samstarfsmanna
hans (1974) sem endurspeglast í heitum þáttanna. Beck
nefnir þá skort á áhugahvöt eins og einnig var valið að gera
í íslensku þýðingunni og væntingar til framtíðar. Þáttur tvö
jákvæðar væntingar til framtíðar var ólíkastur þáttagreiningu
Beck en hann nefnir þann þátt tilfinningar gagnvart framtíðinni.
Þáttagreiningin styrkir hugtakaréttmæti kvarðans og þættirnir
sem komu fram samræmast vel upphaflegri þáttagreiningu
Beck á kvarðanum. Þegar innri áreiðanleiki þáttanna var
skoðaður reyndist hann vera um 0,8 og telst því nokkuð góður.
Athyglisvert er að meðaltal á vonleysiskvarðanum var fremur
hátt meðal sjúklingahópsins í þessari rannsókn (10,02 stig)
þegar haft er í huga að þátttakendur voru í endurhæfingu
en ekki inniliggjandi á bráðageðdeild. Einnig voru allir sem
lögðust inn á geðsviðið beðnir að svara spurningalistanum
óháð sjúkdómsgreiningu, en tæplega 85% nefndu þunglyndi
sem innlagnarástæðu. Rúmlega helmingur þátttakenda
reyndist vera með 9 stig eða meira á vonleysiskvarðanum
en eins og komið hefur fram telst það vísbending um aukna
sjálfsvígshættu (Beck o.fl., 1990; Brown o.fl., 2000). Liðlega
fjórðungur þátttakenda var með 15 stig eða meira sem er
vísbending um mjög alvarlegt vonleysi. Svo virðist sem slæmur
fjárhagur tengist von og framtíðarsýn en þeir sem töldu fjárhag
sinn slæman voru með fleiri stig á vonleysiskvarðanum en
þeir sem töldu fjárhag sinn góðan eða þokkalegan. Þessar
niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir á tengslum
vonleysis og fjárhagsstöðu (Butterworth o.fl. 2006; Hamzaoglu
o.fl., 2010; Haatainen o.fl., 2004) auk þess sem margar
rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi og vonleysi aukist samhliða
versnandi félagslegri stöðu (Gallo og Matthews, 2003). Það
kom á óvart að þeir sem áttu börn reyndust vera einu stigi
hærri að meðaltali á vonleysiskvarðanum en þeir sem voru
barnlausir. Þar sem munurinn var ekki marktækur gæti verið
um tilviljun að ræða. Áhugavert væri að skoða þetta nánar
ásamt fleiri bakgrunnsþáttum og tengslum þeirra við vonleysi.
Þó að hér hafi einungis komið í ljós samband milli vonleysis
og fjárhags þá hafa erlendar rannsóknir sýnt að vonleysi eykst
meðal þeirra sem telja heilsu sína slæma og búa við erfiðar
félagslegar aðstæður (Haatainen o.fl., 2004; Hamzaoglu o.fl.,
2010). Þekkt er að vonleysi hefur áhrif á líkamlega og sálræna
heilsu, framvindu sjúkdóma og lífsgæði þeirra sem eru með
lífshættulega eða langvinna sjúkdóma (Robson o.fl., 2010;
Rosenfeld o.fl., 2004). Því er mikilvægt að hjúkrunarfræðingar
og annað heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi gagnvart þeim sem
eru í áhættuhópi, ásamt því að þekkja einkenni vonleysis,
fyrirbyggjandi aðgerðir og meðferðarúrræði.
Hvað varðar takmarkanir rannsóknarinnar þá var ekki gerð
aflgreining til að ákvarða fjölda þátttakenda í úrtaki heldur stuðst
við rannsókn Dyce (1996) en hann þáttagreindi upprunalega
kvarðann. Þar kom fram að þar sem vonleysiskvarðinn inniheldur
20 fullyrðingar þá þarf að minnsta kosti 100 þátttakendur til
að framkvæma þáttagreiningu. Fjöldi þátttakenda í þessari
rannsókn var því talinn nægur (n=161) til að forprófa og
þáttagreina kvarðann en hefði þurft að vera meiri til að skoða
samband vonleysis og bakgrunnsþátta. Þar sem rannsóknin
var gerð meðal ákveðins sjúklingahóps í geðendurhæfingu
var um að ræða hentugleikaúrtak og hafa niðurstöður því
ekki alhæfingargildi. Samt sem áður má ekki líta framhjá
þeirri staðreynd að vonleysi meðal sjúklinga sem leggjast inn
á geðsvið Reykjalundar er hátt og því líklegt að hluti þessa
sjúklingahóps sé í sjálfsvígshættu. Í rannsókn sem gerð var
skömmu síðar á Reykjalundi fengu inniliggjandi sjúklingar með
þunglyndi enn hærra meðaltal á vonleysiskvarðanum eða
12,06 stig (Rósa M. Guðmundsdóttir, 2007).
Áhugavert væri að leggja íslenska þýðingu vonleysiskvarðans
fyrir fleiri hópa eins og sjúklinga með alvarlega og langvinna
sjúkdóma og bera hann saman við önnur mælitæki til að skoða
réttmæti og áreiðanleika kvarðans sem og undirliggjandi þætti.
Einnig væri athyglisvert að rannsaka hvort vonleysi meðal
Íslendinga er sambærilegt eða frábrugðið því sem fram kemur
í erlendum rannsóknum.
Rannsakendur vonast til að íslensk þýðing vonleysiskvarða
Becks gagnist sem viðbót við annað mat á sálrænni líðan og
að nýta megi niðurstöður hans til að þróa betri hjúkrunar og
heilbrigðisþjónustu. Auk þess er vonast til að kvarðinn geti haft
forvarnargildi á þann veg að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að
koma auga á einstaklinga sem haldnir eru vonleysi.
ÞAKKIR
Þökkum Rósu Friðriksdóttur fyrir hennar framlag við þýðingu
á vonleysiskvarða Becks, gagnasöfnun og innslátt gagna.
Einnig þökkum við þátttakendum og öllum þeim sem komu
að þýðingu og forprófun kvarðans kærlega fyrir aðstoðina.
Rannsóknin hlaut styrk úr Bhluta vísindasjóðs Félags íslenskra
hjúkrunarfræðinga.
HEIMILDIR
Beck, A. T., Brown, G., Berchick., R.J., Stewart, B.L., og Steer, R. A.
(1990). Relationship between hopelessness and ultimate suicide: a
replication with psychiatric outpatients. American Journal of Psychiatry,
147, 190–195.
Beck, A.T., Rush, A.J., Shaw, B.F., og Emery G. (1979). Cognitive therapy
of depression. New York: The Guilford Press.
Beck, A.T., Weissman, A., Lester, D., og Trexler, L. (1974). The
measurement of pessimism: The Hopelessness Scale. Journal of
Consulting and Clinical Psychology, 47 (6), 861–865.
Brislin, R.,W. (1970). Backtranslation for crosscultural research. Journal of
Cross-Cultural Psychology, 1 (3), 185–216.