Þjóðmál - 01.06.2012, Page 45

Þjóðmál - 01.06.2012, Page 45
44 Þjóðmál SUmAR 2012 endanlega eigendur aflandskróna . Þá er lítið vitað um fyrirætlanir krónueigenda almennt við afnám hafta . Þess vegna hef ég talið að róa ætti að því öllum árum að afla gagna um hversu hvikular innlendar krónueignir eru í reynd . Sú athugun ætti ekki síður að beinast að hefðbundnum krónu eignum en aflandskrónum . Skilvirkasta leiðin til upp­ lýsingaöflunar af þessu tagi væri í gegnum vel hönnuð gjaldeyrisútboð . Hönnun þeirra gjaldeyrisútboða sem fram hafa farið þýðir að upplýsingarnar sem úr þeim hafa fengist eru óþarflega tak­ mark aðar . Einhverjar upplýsingar veita þau þó . Í meðfylgjandi töflu er gerð grein fyrir niður stöðu gjaldeyrisútboða í tengslum við kaup Seðlabankans á krónum . Útboðin eru einungis opin aflands krónu eigendum þannig að þau segja ekkert um óþreyju ann­ arra krónueigenda . Og reyndar takmark­ ast þau við þann hluta aflandskróna sem hafa verið í samfelldu eignarhaldi frá 28 . nóvember 2008, þ .e . frá því að gjaldeyris­ höftum var komið á . Lítil og minnkandi þátttaka aflands krónu­ eigenda í þessum útboðum í hlutfalli af aflandskrónueign er eftirtektarverð . Í fyrsta útboðinu í júní 2011 var heildarfjárhæð tilboða 61 milljarður króna . Á þeim tíma var aflandskrónueign um 475 milljarðar króna . Tilboðin námu því innan við 13% af þeirri fjárhæð . Seðlabankinn tók tilboðum að fjárhæð 13,4 milljarðar króna . Fjárhæð tilboða í útboðunum hefur síðan farið minnkandi og í síðasta útboði hingað til, sem haldið var 9 . maí sl ., bárust tilboð að fjár hæð 25,3 milljarðar króna (eða sem sam­ svarar um 6% aflandskrónueigna) og var tilboðum tekið fyrir um 9 milljarða króna . Hver getur verið skýringin á svo lítilli þátttöku aflandskrónueigenda í útboðum Seðlabankans? Nærtækasta skýringin að mínu mati er sú að aflandskrónueigendur séu ekki eins aðþrengdir og af er látið . Vel getur verið að margir þeirra vilji losna frá krónueignum sínum, um það vitum við reyndar ekki . Allt eins getur verið að nokkur hluti þeirra hyggist geyma fé sitt hér á landi til lengri tíma . Flestir þeirra virðast a .m .k . vera tilbúnir að bíða eftir ásættanlegum kjörum . Ef væntingar þeirra um afnám hafta eru svipaðar þeim væntingum sem ég skynja meðal íslenskra atvinnurekenda er lítil þátttaka þeirra í útboðunum til vitnis um mikla þolinmæði . Að lágmarki er hægt að halda því fram að þær upplýsingar sem fást úr útboðum Seðlabankans styðji ekki „flótta kenninguna“ um óþreyju aflands­ krónu eigenda .9 Önnur skýring, sem ég heyri oft nefnda, er að lítil þátttaka aflandskrónueigenda í út­ boðum Seðlabankans stafi af því að þeir vilji ekki sýna á spilin . Hegðun þeirra gangi út á að sannfæra Seðlabankann um að þeir séu þolinmóðir og óhætt sé að afnema höftin . Svo þegar það verði gert hyggist þeir ryðjast út . Þá sé hætt við gengisfalli krónunnar . Þó þessi skýring geti átt við einhverja af­ lands krónueigendur er ótrúverðugt að hún skýri svo litla þátttöku sem raun ber vitni og af hverju dregið hefur svo hratt úr henni .10 Þeir aflandskrónueigendur sem heimild hafa til þátttöku í útboðum Seðlabankans hafa nú haldið krónum sínum að lágmarki í hálft fjórða ár . Þeir hafa hvorki nýtt sér útboð Seðlabankans né markaðinn með af­ lands krónur til útgöngu . Þeir hljóta jafn­ 9 Eftir því sem tíminn líður bætast vextir og verðbætur, eftir atvikum, við eign aflands krónueigenda . Þrátt fyrir að um nokkrar fjárhæðir kunni að vera ræða, e .t .v . vel á annan tug milljarða á ársgrunni, er engin ástæða til að ætla að slík vaxtauppsöfnun tefji fyrir afnámi hafta svo fremi sem þessir fjármunir eru í höndum þolinmóðra eigenda . Óþreyja ætti að koma fram í hærri tilboðsfjárhæðum í gjaldeyrisútboðum Seðla bankans . Af útboðunum verður ekki ráðið að þetta sé vandamál . 10 Ein möguleg (en ósennileg) skýring væri einfaldlega að þetta væru samantekin ráð aflandskrónueigenda . En ef svo væri þætti mér mótsagnakennt að ætla að útganga þeirra yrði ekki einnig vel skipulögð í sameiningu og þannig lítil hætta á kollsteypu þeirra vegna .

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.