Gerðir kirkjuþings - 2009, Blaðsíða 95
95
9. mál kirkjuþings 2009
Flutt af kirkjuráði
Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar og
umhverfisstarf í söfnuðum.
Kirkjuþing 2009 staðfestir eftirfarandi umhverfisstefnu og áætlun um umhverfisstarf í
söfnuðum og stofnunum þjóðkirkjunnar og felur kirkjuráði að fylgja eftir framkvæmd
hennar.
Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Allt sem Guð skapar er gott og viðheldur
lífinu, elur og nærir. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Guð felur manninum að vera
ráðsmaður sköpunarverksins og um leið er hann hluti þess. Þeirri köllun er honum
ætlað að sinna af umhyggju og virðingu fyrir því sem lifir og grær. Lotning fyrir
höfundi sköpunarverksins leiðir til ábyrgðar gagnvart því lífi og náttúru sem hann
skapar. Frammi fyrir hinu sístæða sköpunarverki erum við hvött til að vera
samverkamenn Guðs í að skapa betra líf og réttlátari heim.
Lifnaðarhættir mannkyns á síðustu öldum hafa valdið röskun á náttúru jarðar.
Þessar breytingar kalla á, að við endurskoðum þá lifnaðarhætti og gildismat, vinnum
gegn ofneyslu og sóun og greiðum veg ráðdeildar og virðingar.
Íslenska þjóðkirkjan er aðili að stefnumótun Alkirkjuráðsins og Lúterska heimssam-
bandsins er lýtur að umhyggju fyrir náttúrunni. Í því felst hvatning til þess að söfnuðir
og stofnanir kirkjunnar leggi sitt að mörkum í mótun samfélags og lífshátta sem stuðla
að hófsamari og að réttlátari skiptingu jarðargæða, að vinna gegn fátækt og neyð.
Í samræmi við það vill þjóðkirkjan leggja sitt að mörkum með því að:
1. boða hógværð og látleysi í lífsstíl og neyslu
2. uppörva einstaklinga og samfélag í því að auðsýna ábyrgð í umgengni sinni
um jarðargæði
3. vinna gegn sóun og ofneyslu
4. leggja sig fram um að hlynna að lífi og náttúru
5. stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðargæða, nýtni, orkusparnaði og endurvinnslu.
Til að framfylgja þessari stefnu mun Biskupsstofa leita samstarfs við presta og
söfnuði, stofnanir og félagasamtök um eftirfarandi verkefni:
• útgáfa glöggra og einfaldra leiðbeininga um orkunotkun, sorpflokkun,
endurvinnslu, o.þ.h.á vettvangi sókna og stofnana kirkjunnar
• útgáfa „Ljósaskrefsins“ – handbókar kirkjunnar fyrir umhverfisstarf
• umhverfisfræðsla í söfnuðum og kirkjumiðstöðvum
• þátttaka í almennu umhverfisstarfi í samfélaginu – umhverfisdagatal
• að nýta „Fair trade“ vörur þar sem þess er kostur
• halda úti vefsvæði með upplýsingum, hjálparefni um umhverfismál og
tenglum við erlendar samstarfsstofnanir.