Gerðir kirkjuþings - 2009, Blaðsíða 66
66
Um brauð og vín
Nota skal ósýrt brauð, oblátur, við kvöldmáltíðina. Heimilt er að nota venjulegt (helst
ósýrt) brauð, svo og glútenfrítt brauð.
11. Meginregla er að nota við heilaga kvöldmáltíð vín, rautt eða hvítt . Blanda má
það með vatni. Heimilt er að nota áfengisskert (óáfengt) vín. Sé ekki notað
venjulegt vín eða alkóhólskert, til dæmis vegna takmarkaðs geymsluþols, er
unnt að nota sérrí eða púrtvín, sem blanda má vatni. Heimil er notkun óáfengs
þrúgusafa í altarisgöngunni.
12. Vanda ber alla meðferð og umhirðu hinna helgu efna og kaleiks og patínu.
Kaleik á undantekningarlaust að þvo eftir altarisgöngu.
13. Prestar gæti þess að umframefna sé neytt að lokinni altarisgöngu, ef unnt er.
Geyma má helgað brauð í sérstöku skríni. Afgangsvíni skal hellt í mold, eða
kirkjugrunn, aldrei í niðurfall.
Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Tilskipun 27. maí 1746
• Sálmabók, 1972 ( með síðari breytingum)
• Handbók kirkjunnar, 1981
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Porvoo-samkomulagið, 1995
VII. Skriftir
Iðrun og fyrirgefning
Í skriftum þiggur sá er játar synd sína fyrirgefningu Guðs. Í skriftum játar maður
hlutdeild sína í lífi sem er frásnúið Guði og vilja hans. Í skriftum eru bæði játuð
einstök brot og ófullkomleiki sem sá sér og skynjar sem speglar líf sitt í fullkomnum
kærleika Guðs.
Skriftir fela í sér tvennt: Játningu synda og aflausn í nafni Jesú Krists. Í synda-
játningunni, sem borin er fram í orðum eftir samtal, játar sá sem skriftar synd sína og
sekt. Í aflausninni þiggur hann fyrirgefningu Guðs. Jesús Kristur tekur á sig byrðar
þess sem játar synd sína.
Í skriftum fær sá sem játar synd sína að vaxa í trú og lífi og nálgast æ meir þann
leyndardóm sem lífið í Kristi er. Kristur veitir ekki aðeins fyrirgefningu sína, heldur
kallar til fylgdar og felur þeim sem þiggur að miðla öðrum fyrirgefningu, miskunn-
semi, náð og sáttargjörð.
Sá sem hlýðir skriftum er bundinn þagnarskyldu. Um þagnarskylduna segir Lúther að
skriftir „eiga sér ekki stað í áheyrn minni heldur Krists, úr því að hann bregst ekki
trúnaðarskyldunni geri ég það ekki heldur.“
Skriftir
1. Skriftir fara fram í einrúmi og felast í því að skriftaþegi játar synd sína og að
presturinn boðar fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni.
2. Þjónandi prestur í þjóðkirkjunni skal hlýða skriftum. Skriftamál eru bundin
trúnaðarskyldu.
Almenn syndajátning
3. Almenn syndajátning fer fram í samfélagi safnaðarins og er mikilvægt tákn um
einingu hans. Prestur leiðir syndajátningu safnaðarins eftir fyrirmælum
Handbókar kirkjunnar og að því loknu skal hann með upplyftri hægri hendi
boða söfnuðinum fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni.