Gerðir kirkjuþings - 2009, Blaðsíða 5
5
Ávarp biskups Íslands, Karls Sigurbjörnssonar
Dómsmála- og mannréttindaráðherra, frú Ragna Árnadóttir, forseti kirkjuþings,
biskupar, þingfulltrúar, góðir gestir. Guð gefi ykkur öllum góðan dag. Verið hjartan-
lega velkomin til kirkjuþings 2009.
Hér á landi oss Herrann sá
og huggaði öll í máta.
Því vil ég elska Ísaláð
og yfir það kalla Drottins náð
og aldrei af því láta.
Svo kvað séra Einar Sigurðsson í Eydölum forðum. Játning hans geri ég að minni nú
er við söfnumst saman á kirkjuþingi. Það er köllun okkar og hlutverk hvar svo sem
við stöndum á vettvangi dagsins, að „elska Ísaláð og yfir það kalla Drottins náð og
aldrei af því láta.“ Til þess er þjóðkirkjan okkar, hin biðjandi, boðandi og þjónandi
kirkja.
Þær efnahagsþrengingar sem þjóðin gengur gegnum eru prófsteinn, prófraun á
samfélag okkar, stofnanir, fullveldi þjóðar, samkennd, já og hjartalag. Á þrenginga-
tímum kemur hjartalagið í ljós. Hvað sjáum við? Hvernig slær hið íslenska þjóðar-
hjarta? Hvar bærist hin íslenska þjóðarsál? Við skulum svara því á sama hátt og séra
Einar í Eydölum, í elsku til lands og þjóðar og bæn fyrir heill þess og blessun, í elsku
og bæn sem birtist í verki. Kirkjuþing að þessu sinni mun vekja með sérstökum hætti
athygli á Hjálparstarfi kirkjunnar. Þetta er nýbreytni í dagskrá kirkjuþings sem ég
fagna sérstaklega. Ég vil í nafni kirkjunnar blessa Hjálparstarf kirkjunnar og þakka
það ómetanlega hlutverk sem það gegnir í kirkju og samfélagi, sem útrétt hjálparhönd
kirkjunnar. Síðastliðið ár var hið umfangsmesta í sögu starfsins, innanlands sem utan.
Innanlandshjálpin margfaldaðist að umfangi, og Hjálparstarfinu tókst að standa við
allar sínar skuldbindingar gagnvart samstarfsaðilum erlendis, þrátt fyrir gengishrunið.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur fundið stóraukna samstöðu, stórauknar fégjafir, stór-
aukinn fjölda sjálfboðaliða, mikla fjölgun safnaða og presta sem styðja starfið með
reglubundnum framlögum sínum. Þeim öllum vil ég þakka, og blessa það hlýja og
örláta hjartalag sem það ber vott um.
Ein alvarlegasta afleiðing efnahagshrunsins hefur verið að hinar auðugu þjóðir heims
draga úr þróunaraðstoð og neyðarhjálp. Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna vöktu
ótalmörgum von í brjósti. Samkvæmt þeim á að vinna að því að helminga fjölda
hungraðra í heiminum fyrir árið 2015. Því fer fjarri að því göfuga marki verði náð og
sígur stöðugt á ógæfuhlið. Þróunarhjálp er lífsspursmál fyrir hinar fátæku þjóðir, hjálp
til að rjúfa fátæktargildruna og að hjálpa þeim til að standa á eigin fótum með
fæðuöflun, með því að efla menntun og stuðla að lýðræði, og með því að afnema
viðskiptahindranir sem bitna harkalegast á hinum fátæku ríkjum. Við Íslendingar
skuldbundum okkur gagnvart þúsaldarmarkmiðunum og að lyfta okkur upp úr þeirri
smán, að við, ein ríkasta þjóð heims, höfum staðið langt að baki þeim þjóðum sem við
vildum mæla okkur við í framlögum til þróunaraðstoðar. Og nú þegar þrengir að hjá
okkur er illt til að vita að við hlaupum frá skuldbindingum okkar og vörpum frá okkur
ábyrgð. Það er ekki gæfumerki.