Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 79
79
Framtíðarhópur Kirkjuþings
Skýrsla til kirkjuþings
Kirkjuþing 2010 samþykkti þingsályktun um skipun þriggja manna starfshóps „er meti
nýlega þróun samfylgdar og tengsla ríkis og kirkju. Starfshópurinn skoði aukna fjölbreytni
í menningar- og trúarlífi Íslendinga og hvernig þjóðkirkjan taki með skapandi hætti þátt í
samfélagsþróuninni.“ Starf, málþing og miðlun framtíðarhóps hefur tekið mið af þessum
þáttum. Hópurinn efndi til málþinga um þessi efni og skilaði skýrslu um starf sitt til
kirkjuþings 2011.
Kirkjuþing 2011 samþykkti svo áframhaldandi starf hópsins, en í honum voru Birna G.
Konráðsdóttir, Hjalti Hugason og Sigurður Árni Þórðarson, formaður hópsins. Varamenn
voru sem fyrra árið: Katrín Ásgrímsdóttir, Magnús E. Kristjánsson og Solveig Lára
Guðmundsdóttir. Fyrir hönd Biskupsstofu lagði Árni Svanur Daníelsson hópnum lið.
Sigurður Árni fékk leyfi frá störfum hópsins í mars – júní og þá kom Solveig Lára til starfa
í hans stað.
Umfang og kostnaður
Kirkjuráð veitti til starfs hópsins árið 2012 þrjú hundruð þúsund krónum. Ljóst var að
sú upphæð gæti dugað fyrir ferðakostnaði en vart fleiru. Framtíðarhópur brást við með
því að nýta netið sem mest og efna til málþinga sem voru haldin með lágmarkskostnaði.
Það hefur lánast og starf hópsins hefur verið ríkulegra en fjárveiting gaf tilefni til. Þing
framtíðarhópsins hafa verið fjölbreytileg. Þau hafa skilað upptökum sem hafa ratað í
hljóðvarp, í fréttir hljóðvarps og sjónvarps og á netið. Þá hafa greinar sem hafa orðið
til í tengslum við þessi þing birst í prentmiðlum og á netinu. Allt þetta efni hefur orðið
til samtals og haft áhrif á umræðu um kirkju og kristni í landinu og stöðu kirkjunnar í
samfélaginu.
Framtíð landsbyggðarkirkju og framtíð þjóðkirkju
Á starfsárinu hélt framtíðarhópur tvö málþing um knýjandi mál í þróun þjóðkirkjunnar,
stöðu hennar og þjónustu í samfélagi Íslendinga. Fyrra þingið var um framtíð kirkjunnar
á landsbyggðinni. Hitt var um stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá Íslands og að gefnu
tilefni þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október.
Framtíð kirkjunnar á landsbyggðinni
Málþingið um framtíð kirkjunnar á landsbyggðinni var haldið í safnaðarheimili
Glerárkirkju 2. júní 2012. Fjórir frummælendur ræddu um hlutverk, verkefni og aðstæður
kirkjunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrirlesarar og efni þeirra voru:
Halldór Guðmundsson: Kirkjan í velferðinni á landsbyggðinni.
Kristín Ástgeirsdóttir: Kirkjan á landsbyggðinni og jafnrétti
Arna Ýrr Sigurðardóttir: Kirkjan í þéttbýli á landsbyggðinni.
Þorgrímur Daníelsson: Kirkjan í sveitinni á landsbyggðinni.