Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Síða 36
Hins vegar hlýtur ýmsum að hafa þótt biskupinn taka heldur djúpt í
árinni þegar hann hélt því fram að stöðulögin 1871 og stjórnarskráin sem
konungur setti einhliða hefðu verið það sem Jón Sigurðsson keppti að:
Svo er þá hinn fagri ævidagur þessa mikla þjóðvinar liðinn. Þegar stjórnar-
bót vor var fengin, var eins og því stórvirki væri lokið, sem Drottinn hafði
fengið honum að vinna, og það var eins og hann fyndi þetta sjálfur. Upp
frá því fór heilsan að bila, kraftarnir að þverra, fjörið að dofna og nóttin
fór í hönd. Hann gat þá glaður gengið til hvíldar, því að hann hafði unnið
trúlega meðan dagur var.39
Jón hafði engan veginn mælt stöðulögunum bót og fann sitthvað að
stjórnarskránni þó að hann hefði viðurkennt að hún væri töluverður áfangi
fram á leið til sjálfsforræðis, ágæt trappa til að standa á.40
Athöfninni í kirkjunni lauk með því að sunginn var sálmur Matthíasar
„Fagra tíð er fólkið vaknar“ við lag Berggreens, Guðs son mælti: „Grát þú
eigi.“ Hann er huggunarsálmur og byggist á þeirri trú skáldsins að frelsi
geti ekki verið annað en reykur eða bóla ef dauðinn er endalokin. Þá væri
framtíðin eintómt myrkur. Dauðinn er hins vegar ekki endalokin og skáldið
ávarpar dauðann með sigurópi trúarinnar: „Dauði, burt með dramb og hrós!
Drottinn sagði: Verði ljós!“ Vongóðir geta menn því horft fram til þeirrar
framtíðar þegar öllum fjötrum verður svipt af mannkyni á þeim mikla
frelsisdegi þegar „Herrans hönd höggur sundur dauðans bönd:“
Fagra tíð, er fólkið vaknar
frelsisdegi sínum á
og úr dvaladróma raknar
dauðans myrkri stigið frá,
þar er ódauðleikans lind,
lífsins stóra fyrirmynd.
Fagra tíð er friðarboðmn
fellur yfir lífsins stríð,
fegri tíð er frelsisroðinn
fyllir krafti vakinn lýð,
fegurst tíð er Herrans hönd
höggur sundur dauðans bönd.
39 Útfór 1880, s. 51.
40 Guðjón Friðriksson 2003, s. 436-442 og s. 502-504; Þorsteinn Gíslason 1953, s. 22.