Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Síða 91
vinna með.42 Ekki er sátt um í hvaða sjóði Páll leitar fjárstuðnings fyrir
verkefni sín. Murphy-O'Connor heldur því fram að Páll hafi einkum leitað
ásjár auðugra velgjörðarmanna og undir það tekur Carolyn Osiek.43 Sú leið
er í samræmi við hefðina en að því marki að Páll hafi einkum haft samband
við kynbræður sína í þeim tilgangi. Ray Pickett heldur því á hinn bóginn
fram að helstu skjólstæðingar trúboðs Páls og annarra verkefna sem hann
vildi safna fé fyrir hafi komið úr hópi lágstéttarfólks.44 Ef til vill sótti Páll
að bæði yfir- og undirstéttum í þessum tilgangi en það skiptir sköpum um
hvernig hann sá sjálfan sig í samfélagi hinnar fyrstu kristnu aldar.
Mannfræðingar og trúarbragðafræðingar hafa löngum sett fram
hugmyndir um rými. Chicago-skólinn undir stjórn Mircea Eliade hélt fram
kenningu um guðlegt og heilagt rými sem reynst hefir langlíft í fræðunum
en um leið var Eliade að bregðast við hugmyndum Rudolph Otto um
veraldlegt og andlegt rými. Otto sjálfur var að bregðast við vaxandi gjá á
milli vísinda og trúar á sinni tíð og taldi sig með þessari aðgreiningu geta
varið skynsamlega afstöðu til trúarbragða annars vegar og óskynsamlegrar
hins vegar sem hann vildi fella undir trúarlega reynslu. Skipting Eliade á
rými gekk á hinn bóginn út á það að hið guðlega opinberi sig manneskjunni
og hennar veraldlega umhverfi. I raun notar notar Eliade aðeins annað orð
yfir trúarlega reynslu en Otto.45 G. J. Wightman heldur því fram mörgum
áratugum síðar að hugmyndin um hið heilaga rými hafi um síðir verið
notað um tilteknar byggingar (musteri) og jafnvel sérstaka hluta þeirra og
til þeirrar afmörkunar hafi verið þróað sérhæft tungumál eða orðaforði.46
Aðrir sérfræðingar leggja til að hefja umræðu um rými á landfræðilegum
forsendum áður en lengra væri haldið. Frá örófi alda hefir manneskjan numið
sér land. Hver átti svo sem land og landsvæði sem forverar nútímamannsins
komust í námunda við með vaxandi forvitni og eilífum flutningum frá
einum stað til annars. Sambýli af einni tegund eða annarri hlaut um síðir
að kalla fram skipulag sem þróaðist til þorpsmyndunar og borga. Lampl
hafði bent á þá staðreynd að svo stórfengleg þótti þróun borga að þær voru
42 Murphy-O'Connor, Paul, s. 305-307.
43 Murphy-O'Connor, Paul, s. 267; Carolyn Osiek, „Family Matters" 2005, s. 212. Hún segir
frekar, „All cultures and subcultures of the ancient Mediterran World were publicly androcentric
and patriarchal“ (s. 212).
44 Ray Pickett, „Conflicts at Corinth", 2005, s. 113-137.
45 Rudolph Otto, The Idea of the Holy 1923; Mircea Eliade, The Sacred and the Prophane: The
Natue of Religion 1959.
46 G. T. Wightman, Sacred Spaces: Religious Architecture in the Ancient World 2007, s. 21-22.
89