Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Side 59
Prestastefnur voru á þessum tíma haldnar árlega en oftast aðeins boðaðar
með bréfi til prófasta frá Rangárvöllum vestur á Mýrar og þeim gert að hvetja
presta til þátttöku. Strangt tekið mun þó hafa verið litið svo á að prófastarnir
einir væru skyldir til þátttöku en þeir voru fimm á þessu svæði. Formlega
séð giltu ákvæði í erindisbréfi biskupa frá 1746 enn um prestastefnuna.8
Hún var upphaflega einkum æðra dómþing (synodalréttur) „til að dæma um
kærðan mann andlegrar stéttar í andlegum málum“ sem áður höfðu komið
til kasta prófastsdóms. Þar sem þetta vald hennar var því sem næst horfið
leit að minnsta kosti meirihluti Kirkjumálanefndarinnar 1904-1906 á hana
sem valdalausa stofnun og leifar frá liðnum tíma.9 A 19. öld var þar enda
oft fátt gert annað en að „telja sundur, eptir uppástungu stiptsyfirvaldanna,
prestsekkna- og uppgjafarpresta peninga, sem þeim eru veittir úr lands-
sjóði“.10 Af þessum ástæðum taldi meirihlutinn að prestastefnan ætti „að
hverfa úr sögunni sem önnur úrelt stofnun, er alls ekki [gæti] fullnægt
kröfum tímans“.10
Nokkrar umræður urðu um prestastefnuna og breytingar á henni í
biskupstíð Hallgríms Sveinssonar og taldi Þórhallur Bjarnarson að þá hafi
færst nýtt líf í hana. Prestastefnubók tímabilsins vitnar einnig um að svo
hafi verið og stefnurnar tekið að líkjast prestastefnum nútímans auk þess
sem tekið var að flytja þar formlega fyrirlestra sem stundum voru opnir
almenningi.* 11 Fyrirlestrarnir lifðu lengi í mynd svokallaðra synódus-erinda
sem flutt voru í útvarpi en hafa nú horfið.
8 Instruction for superintendenterne i Island 1. 7. 1746, Lovs. f. Isl. 1853(2): 656-657. Jón
Pétursson 1890: 169-171. Tillögur um kirkjumál 1906: 20-21. Sjá og Einar Arnórsson 1912:
73. Bjarni Sigurðsson 1986: 288-289.
9 Jón Pétursson 1890: 52-57. Tillögur um kirkjumál 1906: 20-21.
10 Jón Pétursson 1890: 171. Sjá FriðrikJ. Bergmann 1901: 61-63.
11 ÞÍ. Bps. 1994-BA/l. Hallgrímur biskup 1910: 2. í biskupstíð Hallgríms Sveinssonar, nánar
tiltekið 1892, urðu nokkur greinaskrif í Kirkjublaðinu, fyrra málgagni Þórhalls Bjarnarsonar,
um endurbætur á prestastefnunni er miðuðu að því að gera hana að virkari umræðuvettvangi í
kirkjunni. Tengdust þær tillögum Þórarins Böðvarssonar um kirkjuþing. Þar lagði Jónas Jónasson
(1856-1918) á Hrafnagili m.a. áherslu á að synódus í þeirri mynd sem hún var þá, þ.e. með
mætingu úr prófastdæmunum fjórum sem næst voru Reykjavík, yrði að verða kirkjuþing með
kjörnum fúlltrúum presta af landinu öllu. Þá lagði Björn Bjarnarson (1856-1951) bóndi í
Reykjakoti (síðar Reykjahvoli) alþm. Borgf. til að prestastefnan yrði þróuð yfir í kirkjuþing
er væri skipað bæði prestum og leikmönnum og byggði þar á fyrirmyndum frá Vesturheimi.
Þórhallur Bjarnarson taldi aftur á móti að slík þróun væri ómöguleg innan vébanda ríkiskirkju.
Synodalrjettur. - Synodus. - Kirkjuþing 1892a: 26-27. Guðmundur Guðmundsson 1892:
56-57. Jónas Jónasson 1892: 74-76. Björn Bjarnarson 1892: 87-88. Synodalrjettur - Synodus
- Kirkjuþing 1892b: 104-107.
57