Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Blaðsíða 43
Gunnlaugur A. Jónsson, Háskóla íslands
Faðir minn var umreikandi Aramei
Af trúarjátningum í Gamla testamentinu og
aldargömlum umræðum um trúarjátningar á íslandi
Trúarjátningar hafa fylgt kristninni frá upphafi og ekki bara það heldur eru
þær sannarlega til staðar fyrir upphaf kristni, í Gamla testamentinu.
A prestastefnu árið 1909 urðu umtalsverðar umræður um trúarjátningar
og þar voru þær harðlega gagnrýndar í anda hinnar frjálslyndu guðfræði og
taldar vera tilræði við kenningafrelsi presta.
Umræðurnar um trúarjátningarnar þá voru mjög í anda þeirra umræðna
sem urðu um biblíurannsóknir kringum aldamótin 1900 og náðu hámarki í
kærumálum sem urðu út af nýrri biblíuþýðingu árið 1908. Sú biblíuþýðing
var af andstæðingunum kölluð „heiðna Biblían'1.1 Er það heiti lýsandi
fyrir andrúmsloftið sem ríkti hér á landi og ekki síður meðal íslendinga í
Vesturheimi upp úr aldamótunum 1900, en réttnefni var það ekki.
I umræðunni kringum prestastefnuna 1909 og raunar oft síðan hefur
það viljað gleymast að trúarjátningar eru mun eldri en frá 3. , 4. eða 5. öld
e. Kr.2
I þessari grein verða umræðurnar hér á landi fyrir rúmri öld rifjaðar upp.
Megináhersla greinarinnar hvílir þó á trúarjátningum Gamla testamentisins
en slíkar játningar er svo sannarlega að finna þar, eins og hér verður
sýnt fram á. Fjallað verður um nokkrar dæmigerðar játningar úr Gamla
testamentinu. Kannað verður upp úr hvaða jarðvegi þær eru sprottnar,
1 Sjá t.d. Gunnlaugur A. Jónsson, Ritröð Guðfrœðistofnutiar 1990, s. 57-84.
2 I bók Einars Sigurbjörnssonar 1993, Credo. Kristin trúfrœði, er hins vegar vel og rækilega sýnt fram
á biblíulegar rætur játninganna. Sjá t.d. s. 194: „Orðalag sálmanna og játningarritanna mótaðist
smám saman á sama tímabili og ritsafn Biblíunnar tók á sig mynd...“ Sbr. einnig rit Einars, 1980,
Kirkjan játar. Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar. Norski nýjatestamentisfræðingurinn Halvor
Moxnes segir í bók sinni Hvað er kristin trúi að fýrsta merki um trúarjátningarnar megi rekja
strax til 1. aldar og nefnir í því sambandi skírnarskipunina í Matteusarguðspjalli. Sjá Moxness
2011, s. 65.
41